Skip to main content
19. mars 2020

Veirur og COVID-19 á Vísindavefnum

""

Vísindavefurinn hefur opnað sérstaka vefsíðu þar sem sett hafa verið inn svör og fróðleikur sem snerta veirur og COVID-19 faraldurinn sem nú gengur yfir heimsbyggðina.

Landsmenn hafa ekki farið varhluta af þeim áhrifum sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á samfélagið enda er nú í gildi samkomubann í landinu. Starfsmenn Vísindavefsins finna einnig fyrir áhrifum faraldursins. Þeim hafa á síðustu dögum og vikum borist fjölmargar fyrirspurnir frá forvitnum lesendum um ýmsar hliðar COVID-19 faraldursins og veirur og sjúkdóma almennt.  

Starfsmenn vefsins og velunnarar hafa brugðist hratt við og birt fjölda nýrra svara sem snerta viðfangsefnið. Þar má nefna svör um uppruna COVID-19 veirunnar og hvers konar veira hún er, hvernig og hvenær fyrsta veiran sem veldur sjúkdómi í mönnum fannst, hvernig veirur eru greindar í mönnum, áhrif spritts og handþvottar á veirur og hvenær sjúkdómur verður faraldur

Á vefsíðunni nýju, sem nú hefur verið opnuð, eru einnig eldri svör um fyrri farsóttir og heimsfaraldra af völdum veira, eins og spænsku veikina og ebólu og ýmsar hliðar veirufræðinnar. Reyndar má segja að svörin snerti alls kyns vísindi sem tengjast veirum og faröldrum, ekki aðeins heilbrigðisvísindi. Svörin rita bæði starfsmenn Vísindavefsins og helstu sérfræðingar landsins í hverjum málaflokki fyrir sig og von er á fleiri svörum sem snerta þetta stærsta mál samtímans á næstu dögum.

Borið hefur á því að ýmiss konar ósannindi og hálfsannleikur um veiruna skæðu fari á flakk á milli manna á netinu  og skapi jafnvel ugg og kvíða meðal fólks. Með nýjum svörum vill Vísindavefurinn bregðast við þessu og leggja sitt af mörkum til yfirvegaðrar umræðu um COVID-19 faraldurinn, veirur og áhrif þeirra.

„Við hvetjum alla þá sem vilja spyrja Vísindavefinn um veirur og allt sem tengist COVID-19 að senda inn spurningar. Það er einfaldlega gert með því að smella á græna hnappinn „Spyrja“ sem er aðgengilegur á öllum síðum Vísindavefsins,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins.

Ný síða Vísindavefsins um veirur og COVID-19
 

covid-veira