Skip to main content
8. október 2020

Veglegir styrkir til framhaldsnáms í Bandaríkjunum í boði

""

Stofnun Leifs Eiríkssonar (Leifur Eiriksson Foundation) auglýsir eftir umsóknum um styrki til framhaldsnáms fyrir íslenska stúdenta í Bandaríkjunum. Alls verða tíu styrkir í boði og umsóknarfrestur fyrir skólaárið 2021-2022 er 20. nóvember nk.

Sjóðurinn veitir nú styrki í sextánda sinn en hann var stofnaður árið 2001 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá siglingu Leifs Eiríkssonar til Norður-Ameríku. Tilgangur sjóðsins er að styrkja samstarf milli íslenskra og bandarískra háskóla með því að veita íslenskum stúdentum styrk til að stunda framhaldsnám (meistara- eða doktorsnám) í Bandaríkjunum og bandarískum stúdentum styrk til að stunda framhaldsnám á Íslandi. 

Upphæð styrkja nemur allt að 25.000 dollurum, jafnvirði nærri 3,5 milljóna króna, sem talið er nægja almennt fyrir skólagjöldum og framfærslukostnaði í eitt ár í Bandaríkjunum. Reiknað er með að 10 styrkjum verði úthlutað úr sjóðnum fyrir skólaárið 2021-2022 og er umsóknareyðublað fyrir styrki að finna á www.leifureirikssonfoundation.org. Sem fyrr segir er umsóknarfrestur til 20. nóvember 2020.

Ótalmörg tækifæri eru fyrir íslenska stúdenta til að stunda framhaldsnám og rannsóknir í Bandaríkjunum og öll fagsvið eru styrkhæf, að því undanskildu að sjóðurinn styrkir ekki grunnnám í íslenskri eða enskri tungu. Þannig hafa styrkhafar undanfarinna ára m.a. lagt stund á nám á sviði raunvísinda, sagnfræði, kvikmyndagerðar, verkfræði, líffræði, fornleifafræði, tónlistar, heilbrigðisvísinda og félagsvísinda við jafnöfluga skóla og Harvard, Yale, Columbia, Julliard, MIT, Pennsylvaníuháskóla og Minnesotaháskóla.

Stjórn stofnunarinnar er tilnefnd af Seðlabanka Íslands, forsætisráðherra Íslands og University of Virginia. Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, er formaður stjórnarinnar og fulltrúi Seðlabanka Íslands. Aðrir stjórnarmenn eru John Casteen III, fyrrverandi rektor University of Virginia, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, tilnefnd af forsætisráðherra, Susan Harris, lögfræðingur við University of Virginia, og Nancy Marie Brown, fræðimaður og rithöfundur.
 

Frá háskólasvæði Minnesota-háskóla