Skip to main content
9. september 2019

Úthlutað úr minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar í fyrsta sinn

Minningarsjóður Guðbjarts Hannessonar veitti í fyrsta sinn verðlaun við brautskráningu Háskóla Íslands 22. júní síðastliðinn. Verðlaunin eru ætluð einstaklingum sem ljúka námi úr tómstunda- og félagsmálafræði með fyrstu einkunn, skila framúrskarandi lokaverkefni, hafa unnið óeigingjarnt starf sem fulltrúar nemenda í stjórn deildar og verið virk í félagslífi. Að þessu sinni hlaut Indíana Björk Birgisdóttir verðlaunin. Indíana fjallaði um kynlífsmenningu í framhaldsskólum í lokaverkefni sínu sem hún vann ásamt Lilju Eivoru Gunnarsdóttur Cederborg undir leiðsögn Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors í tómstunda- og félagsmálafræði.

Guðbjartur eða Gutti eins og hann var ávallt kallaður af samstarfsmönnum sínum var fæddur á Akranesi 3. júní 1950. Hann lauk kennaraprófi KÍ 1971, tómstundakennaraprófi frá Seminariet for Fritidspædagoger í Vanløse í Danmörku 1978, framhaldsnámi í skólastjórn KHÍ 1995 og meistaraprófi frá Kennaradeild Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) 2005. Guðbjartur var lengst af starfsævi sinnar farsæll skólastjóri Grundaskóla á Akranesi en gegndi einnig ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæjarstjórn Akraness sem bæjarfulltrúi, formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar. Hann gegndi lengi trúnaðarstörfum fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og fjölmörg fyrirtæki, félög og stofnanir. Hann var alþingismaður fyrir Norðvesturkjördæmi 2007-2015. Gengdi ábyrgðarmiklum hlutverkum innan ríkisstjórnar Íslands. Hann var forseti alþingis 2009, félags-, tryggingamála- og heilbrigðisráðherra 2010 og velferðarráðherra 2011–2013.

Guðbjartur var afar virkur í margvíslegri félagsstarfsemi. Hann var erindreki Bandalags íslenskra skáta og alla tíð virkur félagi í Skátafélagi Akraness. Gutti var einnig virkur þátttakandi í íþróttahreyfingunni og sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Íþróttabandalag Akraness. 

Í menntamálum kom Guðbjartur víða við og var virkur í fagþróun kennara og skólastjórnenda.  Gutti var einn af þeim fyrstu sem sóttu sér formlega menntun sem tómstunda- og frístundafræðingur. Hann var frumkvöðull í að tengja félags- og tómstundamenntun við aðra uppeldismenntun. Sem kennari og skólastjóri lagði hann ávallt áherslu á góða líðan nemenda og mikilvægi þess að vinna skipulega með tómstundir í skólastarfinu. Í þeirri viðleitni sinni stóð hann m.a. að útgáfu fræðsluefnis um öflugt foreldrastarf og fræðsluefni um tómstundir og félagsstarf. Uppeldis- tómstunda- og menntamálum sýndi hann ávallt mikinn áhuga og umhyggju og þeirri hugsjón er þessum verðlaunum ætlað að halda á lofti. Guðbjartur lést 23. október 2015.
 

Indíana Björk Birgisdóttir, brautskráð úr tómstunda- og félagsmálafræði, hlaut verðlaun úr minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar. Anna Sigríður Ólafsdóttir, forseti Deildar heilsueflingar, tómstunda og íþrótta afhenti verðlaunin á brautskráningu Háskóla Íslands 22. júní síðastliðinn. MYND/ Kristinn Ingvarsson