Uppskerudagur
Kveðja rektors til stúdenta og starfsfólks á brautskráningardegi:
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Í erilsömu starfi Háskóla Íslands árið um kring standa brautskráningardagar ævinlega upp úr og eru sveipaðir hátíðarljóma. Í dag munu á fimmta hundrað kandídatar fagna merkum áfanga þegar þeir fá prófskírteini sín afhent í Háskólabíói.
Fyrir hönd Háskóla Íslands óska ég öllum kandídötum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með árangurinn. Prófskírteinin frá Háskóla Íslands eru ekki aðeins gæðastimpill heldur einnig lykill að framtíðinni, að nýjum störfum eða frekara námi. Gleymum því aldrei að þekking er undirstaða jafnt þroska einstaklingsins sem blómlegs samfélags og Háskóli Íslands er skóli atvinnulífs framtíðar.
Brautskráning markar jafnframt tímamót í lífi starfsfólks og stjórnenda Háskóla Íslands. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að prófgráða héðan sé traustur vitnisburður um þekkingu og hæfni kandídata, hvert sem leiðir liggja. Og þeir munu njóta góðs af orðspori Háskóla Íslands og því öfluga tengslaneti sem skólinn hefur byggt upp um allan heim. Við munum ævinlega minnast samverunnar og líta á kandídata sem Háskólavini.
Árið 2021 er fyrir margra hluta sakir sögulegt. Við minnumst þess að 110 ár eru liðin frá því að Háskóli Íslands var stofnaður á Alþingi á fæðingardegi frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar. En þetta ár er einnig án hliðstæðu vegna gífurlegra áhrifa kórónuveirunnar á samfélag okkar, þar á meðal á starf Háskóla Íslands. Þetta hefur reynt á bæði starfsfólk og nemendur sem hafa í sameiningu haldið uppi gæðum skólastarfsins við afar krefjandi aðstæður. Þetta ber vitni um þrautseigju kandídatanna sem ljúka nú námi frá Háskóla Íslands við þessar einstöku aðstæður. Þeir fara því ekki aðeins út í lífið með nýja þekkingu og prófgráðu í farteskinu heldur einnig með nokkurs konar viðbótargráðu í seiglu og sveigjanleika sem mun vafalaust nýtast í framtíðinni.
Í stað hefðbundinnar brautskráningar býðst kandídötum í dag að sækja prófskírteini sín samkvæmt auglýstri tímaáætlun og er þessi breyting til komin vegna samkomutakmarkana. Af þessum sökum er því miður ekki unnt að bjóða aðstandendum að vera viðstaddir við afhendingu prófskírteina. Við leggjum kapp á að skapa hátíðarbrag í Háskólabíói þótt athöfnin sé ekki með sama sniði og venjulega. Við vonumst til þess að sjá sem flesta kandídata því þetta er í senn gleði- og uppskeruhátíð okkar allra.
Hér er kveðja mín til kandídata í tilefni dagsins.
Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Orðið bjartsýni er eins og mörg orð íslenskunnar gagnsætt og myndrænt og tekur einmitt mið af því sem okkur Íslendingum er einna kærast, birtunni. Síðustu daga höfum við orðið áþreifanlega vör við hækkandi sól og suma daga er ekki laust við að vorkeimur sé í lofti. Eitt vitum við samt sem hér búum að íslenskt veður fer ekki alltaf eftir almanakinu en birtan er vís og hún vex nú stöðugt fram að sumarsólstöðum. Mestu skiptir að hleypa henni að sér.
Verum bjartsýn á framtíðina, kæru kandídatar, nemendur og samstarfsfólk.
Til hamingju með daginn!
Jón Atli Benediktsson, rektor“