Unnur áhrifamesta vísindakona Evrópu
Unnur Þorsteinsdóttir, nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, er áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum samkvæmt nýjum lista sem vefurinn Research.com hefur tekið saman og byggist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna.
Research.com er vettvangur miðlunar um rannsóknir, vísindaráðstefnur og vísindamenn og ásamt því að fjalla um vísindi á breiðum grunni birtir vefurinn reglulega ýmsa lista yfir framúrskarandi tímarit, vísindamenn og ráðstefnur á ólíkum fræðasviðum.
Vefurinn birtir nú í fyrsta sinn lista yfir fremstu vísindakonur heims en með því vilja forsvarsmenn vefsins draga fram afrek kvenna í geira þar sem karlmenn hafa um langt skeið verið í miklum meirihluta. Markmiðið með listanum er einnig að hvetja vísindakonur áfram í sínum störfum og ungar konur til þess að helga sig vísindum. Bent er á á vefnum að konur séu aðeins þriðjungur starfsfólks í vísindum og þá sýni rannsóknir að síður sé vísað í vísindakonur en -karla og framlag þeirra síður metið, þar á meðal við ritun vísindagreina og við umsókn einkaleyfa.
Listinn yfir bestu vísindakonur heims byggist á upplýsingum úr gagnabönkunum Google Scholar and Microsoft Academic Graph. Alls voru upplýsingar um vísindastörf yfir 166 þúsund vísindakvenna á 24 fræðasviðum skoðaðar við vinnslu listans en hann byggist m.a. á svokölluðum h-stuðli sem tekur bæði til birtinga vísindagreina og tilvitnana annarra vísindamanna í þær greinar. Þá var einnig tekið tillit til hlutfallslegs framlags viðkomandi vísindakonu innan sinnar vísindagreinar og viðurkenninga sem vísindakonurnar, sem til skoðunar eru, hafa fengið. Afraksturinn er listi yfir 1.000 áhrifamestu vísindakonur heims.
Hátt í 190 þúsund tilvitnanir
Unnur Þorsteinsdóttir tók við starfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs nú í sumar en hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá síðustu aldamótum þar sem hún sinnir erfðarannsóknum, m.a. tengdum hjarta og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og krabbameinum. Samhliða starfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu gegndi Unnur stöðu rannsóknarprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands frá árinu 2007.
Fram kemur á Research.com að tilvitnanir í rannsóknir sem Unnur hefur komið að eru hátt í 190 þúsund og birtingar hennar rúmlega 460 á því tímabili sem liggur til grundvallar listanum. Það skilar henni í fimmta sæti á lista yfir fremstu vísindakonur heims og í fyrsta sæti meðal vísindakvenna í Evrópu sem fyrr segir. Unnur Þorsteinsdóttir er jafnframt eina íslenska vísindakonan sem kemst á listann að þessu sinni.
Listann yfir fremstu vísindakonur heims og frekari upplýsingar um grundvöll matsins má finna á Research.com.
Nánar um Unni Þorsteinsdóttur
Unnur lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1984 og diplómanámi í kennslufræði fyrir kennara í framhaldsskóla árið 1987. Hún lauk doktorsprófi í sameindaerfðafræði frá University of British Columbia árið 1997. Á árunum 1997-2000 var hún nýdoktor við Institut de Recherches Cliniques de Montreal í Kanada. Hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000 en tók við starfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs 1. júlí á þessu ári, en Heilbrigðisvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands.
Unnur hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og nefndum, þ. á m. fagráði Rannsóknarsjóðs í heilbrigðis- og lífvísindum 2002-2006, Vísinda- og tækniráði Íslands 2009-2012, stjórn Rannsóknarsjóðs RANNÍS á árunum 2004-2008 og 2012-2016 og var formaður stjórnar Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar 2013. Hún hefur setið í doktorsnefndum, verið andmælandi við doktorsvarnir og leiðbeint doktorsnemum. Þá hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir og fékk m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017.