Tvö sprotafyrirtæki nýta rannsóknaaðstöðu í Lífvísindasetri HÍ
Fulltrúar Háskóla Íslands og sprotafyrirtækjanna Arterna Biosciences og EpiEndo Pharmasceuticals undirrituðu á dögunum samning um að fyrirtækin tvö geti nýtt rannsóknarinnviði Lífvísindaseturs Háskóla Íslands. Bæði fyrirtæki grundvallast á rannsóknum vísindafólks við HÍ.
Samningarnir kveða á um að vísindamenn fyrirtækjanna tveggja hafi aðgang að rannsókna- og skrifstofurými og sérhæfðum tækjabúnaði á vegum Lífvísindaseturs í Læknagarði gegn leigugreiðslu.
Lífvísindasetur HÍ er formlegur samstarfsvettvangur rannsóknahópa í sameinda- og lífvísindum innan og utan HÍ en þeir vinna að því að skjóta fleiri stoðum undir rannsóknir í lífvísindum hér á landi og frekari atvinnuuppbyggingu tengdri þessu sviði vísinda. Aðilar að Lífvísindasetri hafa á undanförnum árum fjárfest í ýmiss konar tækni og tækjabúnaði sem nýst getur fjölbreyttum rannsóknahópum og stofnunum setursins og nú sprotafyrirtækjunum tveimur.
EpiEndo var stofnað árið 2014 en grundvallast á rannsóknum sem hófust innan Lífvísindaseturs. Fyrirtækið vinnur að þróun lyfja gegn algengum lungnasjúkdómum, eins og lungnaþembu.
Arterna Biosciences var stofnað árið 2021 af þeim Margréti Helgu Ögmundsdóttur og Eiríki Steingrímssyni, prófessorum við Lífvísindasetur, ásamt félaga þeirra, Steingrími Stefánssyni. Markmið fyrirtæksins er að bæta gæði mRNA-sameinda sem nýttar eru til rannsókna, en mRNA hefur það hlutverk að geyma og flytja erfðaupplýsingar.
Samningana undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Margrét Helga Ögmundsdóttir, forsvarskona Arterna, og Stefán Pétursson, fjármálastjóri EpiEndo Pharmasceuticals, en viðstödd voru einnig fulltrúar frá báðum fyrirtækjum og Lífvísindasetri.