Tveir nemendur fara til Caltech til sumarrannsókna

Sesselja Picchietti, nemi í eðlisfræði, og Sigríður Bára Min Karlsdóttir, nemi í lífefna- og sameindalíffræði, halda til Bandaríkjanna í sumar til að vinna rannsóknaverkefni í tíu vikur við einn allra fremsta rannsóknaháskóla heims Caltech - California Institute of Technology.
Þær taka þátt í SURF eða Summer Undergraduate Research Fellowship prógrammi þar sem grunnnemar vinna að rannsóknaverkefnum undir leiðsögn kennara við Caltech. Sesselja mun vinna að verkefni hjá Joseph Falson, lektor í efnisfræði, og Sigríður Bára með Lindu Hsieh-Wilson, prófessor í efnafræði.
Sesselja og Sigríður tóku nýverið við styrk til farararinnar sem nemur 7.950 bandaríkjadölum og er veittur úr sjóði sem kenndur er við hjónin Kiyo og Eiko Tomiyasu. Kiyo Tomiyasu var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði og átti lykilþátt í að koma á samstarfssamningi milli Caltech og Háskóla Íslands árið 2008.
Frá því samstarfið hófst hafa vel á fimmta tug nemenda frá Háskóla Íslands tekið þátt í SURF-verkefninu við Caltech og að sama skapi hafa fjölmargir Caltech-nemar unnið rannsóknarverkefni við Háskóla Íslands undir handleiðslu kennara skólans. Í sumar verða þrír Caltech nemendur við rannsóknir við Háskóla Íslands. Levi Alderete og Nat Hernandez munu vinna með Elíasi Rafni Heimissyni, sérfræðingi við Jarðvísindastofnun, og Jacob Alderete vinnur verkefni undir handleiðslu Rúnars Unnþórssonar, prófessors í iðnaðar- og vélaverkfræði.
