Tryggvi nýr kennsluþróunarstjóri Menntavísindasviðs
Tryggvi Thayer hefur verið ráðinn kennsluþróunarstjóri við Menntavísindasvið frá 1. febrúar síðastliðnum. Hann mun meðal annars vinna að verkefnum tengdum þróun framúrskarandi námsumhverfis og kennsluhátta í samvinnu við forseta, kennslunefnd og kennslustjóra Menntavísindasviðs. Enn fremur mun Tryggvi sjá um innleiðingu og eftirfylgni kennslustefnu sviðsins.
Tryggvi lauk BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í alþjóðlegri samanburðarmenntunarfræði frá Minnesota-háskóla. Hann mun verja doktorsritgerð í sömu grein við Minnesota-háskóla í maí og ber doktorsverkefnið heitið Foresight Programs for Educational Policy: Program Participants' Perceptions and Experiences with Outcomes. Tryggvi hefur umfangsmikla reynslu af kennslu á háskólastigi, kennsluþróun og rannsóknum á þróun kennsluhátta. Síðustu ár hefur hann verið verkefnastjóri Menntamiðju, sem er vettvangur fræðslu og starfsþróunar á sviði menntunar. Í starfinu hefur Tryggvi átt frumkvæði að því að byggja upp lærdómssamfélög kennara og fræðimanna og hefur skipulagt námskeið og fræðslu fyrir kennara. Þá hefur hann tekið þátt í og stýrt alþjóðlegum samstarfsverkefnum um þróun kennsluhátta og unnið að þróunarverkefnum tengdum samfélagslegri nýsköpun á sviði menntunar.
Netfang Tryggva er tbt@hi.is og verður hann með aðsetur á á Múlagangi á 1. hæð í Stakkahlíð.
Við bjóðum Tryggva velkominn til starfa.