Skip to main content
5. júní 2018

Tólf nemendur til sumarnáms í Stanford

Tólf nemendur Háskóla Íslands halda til náms við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum í sumar í Stanford Summer Session´s International Honors Program. Sumarnámið við Stanford nær yfir átta vikur og þar taka nemendur námskeið sem þeir fá metin til eininga í námi sínu við Háskóla Íslands. 

Fjórir nemendur hljóta að þessu sinni styrk frá Stanford og Háskóla Íslands til námsins. Það eru Eir Andradóttir, nemi í læknisfræði, Ísak Valsson, nemi í verkfræðilegri eðlisfræði, Númi Sveinsson, nemi í vélaverkfræði, og Þórdís Tryggvadóttir, nemi í vélaverkfræði. Auk þeirra halda Ágúst Páll Haraldsson, nemi í stærðfræði og tölfræði, Berglind Sigmarsdóttir, nemi í sálfræði, Fríða Snædís Jóhannesdóttir, nemi í tölvunarfræði, Guðrún Snorra Þórsdóttir, nemi í iðnaðarverkfræði, Ingi Steinn Guðmundsson, nemi í hugbúnaðarverkfræði, Kamilla Kjerúlf, nemi í lögfræði, Lilja Brandsdóttir, nemi í viðskiptafræði, og Saga Helgason Morris, nemi í rússnesku, til náms við Stanford í sumar. Þetta er áttunda árið sem nemendur Háskóla Íslands fá þetta einstæða tækifæri við þennan víðkunna háskóla og er þetta stærsti hópurinn til þessa.

Stanford-háskóli í Kaliforníu er einn fremsti háskóli heims og býður upp á nám á breiðu sviði. Það er mikill fengur að samstarfi Stanford og Háskóla Íslands, en samningur milli skólanna var undirritaður 2010. Sumarnámið við Stanford er í senn afar fjölbreytilegt og eftirsóknarvert fyrir nemendur Háskóla Íslands og gerir þeim kleift að kynnast einstöku vísindasamfélagi. 
 

Tíu af Stanford-förunum tólf ásamt rektor, aðstoðarrektorum og fulltrúum af Skrifstofu alþjóðasamskipta.