Tilslakanir á sóttvarnarreglum
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (25. maí):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Ný vika hefst með talsverðum tilslökunum á sóttvarnarreglum sem við getum ekki síst þakkað árverkni ykkar allra, samstöðu og seiglu. Auk þess hafa skipulagðar bólusetningar breytt miklu hérlendis.
Nýjar tilslakanir gefa svo sannarlega fyrirheit um að daglegt líf okkar geti innan skamms farið aftur í hefðbundinn farveg og að starf í Háskóla Íslands á næsta haustmisseri verði með venjulegu sniði.
Afar mikilvægt er þó að fylgja áfram þeim reglum sem heilbrigðisyfirvöld setja svo að ekki komi bakslag í baráttuna við kórónaveiruna.
Tilslakanir sem nú eru auglýstar eru ekki sniðnar sérstaklega að starfi háskóla. Þær eru þó helst þessar að almennar fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 150 manns. Í starfi skólans mátti fjöldi ekki fara yfir 100 í hverju kennslu- eða lesrými og því er hér um talsverða tilslökun að ræða.
Í starfi Háskóla Íslands og á viðburðum þar sem fólki er skipað í sæti verða nándarmörkin einn metri. Létt verður á grímuskyldu og fellur hún niður innan skólans nema á viðburðum þar sem fólki er skipað í sæti. Hámarksfjöldi áhorfenda á viðburðum á vettvangi skólans fer úr 150 í 300 manns í hverju sóttvarnahólfi með ákveðnum skilyrðum. Þetta gefur okkur vonir um að brautskráning geti orðið með nokkuð hefðbundnu sniði 19. júní nk.
Góð loftræsting er í öllum byggingum Háskóla Íslands og verða sameiginlegir snertifletir í kennslustofum sótthreinsaðir milli hópa. Eins verða snertifletir og sameiginlegur búnaður sótthreinsaður a.m.k. daglega.
Gangi ykkur vel í vikunni fram undan.
Jón Atli Benediktsson, rektor“