Tilkynning frá rektor 12. mars vegna COVID-faraldurs
Tilkynning frá rektor 12. mars vegna COVID-faraldurs:
„Kæru nemendur og starfsfólk.
Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun (12. mars 2020) til að fara yfir stöðu mála varðandi COVID-19.
• Neyðarstjórn hvetur nemendur og starfsfólk til að nýta sér rafrænar þjónustuleiðir sem eru sýnilegar alls staðar á vef Háskólans. Þær er að finna undir hnappinum „Netspjall“. Þar má ná sambandi við þjónustuborð (almennar fyrirspurnir), nemendaskrá (umsóknir og skráning), upplýsingatæknisvið (fyrirspurnir vegna tæknimála). Einnig hefur verið opnað fyrir nýtt netspjall um viðbúnað á sviði náms og kennslu vegna COVID-19.
• Til að styðja enn betur við erlenda nemendur við Háskóla Íslands og skiptinema skólans erlendis er í forgangi að setja upp nýtt netspjall fyrir þennan hóp.
• Neyðarstjórn hvetur nemendur og starfsfólk til að huga sérstaklega að einstaklingum sem hafa lítið tengslanet á Íslandi.
• Áréttað er að handþvottur er mikilvægasta einstaka sýkingarvörnin, sbr. leiðbeiningar Landlæknisembættisins og Vísindavefs Háskóla Íslands. Þrif hafa enn verið aukin í byggingum Háskóla Íslands.
• Ítrekað er að fólk með áhættuþætti á að vinna heima, forðast mannamót að óþörfu og huga vel að hreinlæti.
• Neyðarstjórn minnir á vefsíður á ytri og innri vef Háskóla Íslands sem innihalda helstu upplýsingar um viðbúnað vegna COVID-19 og eru uppfærðar daglega. Fólk er hvatt til að kynna sér þessar upplýsingar vel og deila þeim sem víðast innan háskólasamfélagsins.
• Ábendingar og spurningar til neyðarstjórnar berist á netfangið neydarstjorn@hi.is
• Meðfylgjandi er bréf frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra til nemenda, á íslensku, ensku og pólsku. Hvet ég nemendur eindregið til að lesa bréfið.
Ég hvet ykkur öll til að hlúa vel hvert að öðru.
Með góðri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor“
Bréf almannavarna til nemenda á íslensku
Bréf almannavarna til nemenda á ensku
Bréf almannavarna til nemenda á pólsku