Þrjú tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Þrír nemendur við Háskóla Íslands eru í hópi fimm námsmanna sem tilnefndir eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrir framúrskarandi verkefni sem unnin voru fyrir tilstilli Nýsköpunarsjóðs námsmanna á síðasta ári.
Um 100 verkefni hlutu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir sumarið 2014 en styrkirnir gera háskólum, fyrirtækjum og öðrum stofnunum kleift að að ráða stúdenta í grunn- og meistaranámi til sumarvinnu við rannsóknarverkefni. Aðstandendur verkefnanna skila síðan inn skýrslu um verkefnin að sumari loknu og í framhaldinu eru valin fimm eða sex öndvegisverkefni sem keppa um Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands.
Sem fyrr segir standa nemendur við Háskóla Íslands að þremur af fimm verkefnum sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni Nýsköpunarsjóðs námsmanna 2015. Verkefnin sem um ræðir eru:
- Eden hugmyndafræðin og hlýleiki á öldrunarheimilum Akureyrar sem María Guðnadóttir, MS-nemi í lýðheilsuvísindum, vann. Leiðbeinandi var Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar og lektor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.
- Íslenskuþorpið; leið til þátttöku í samskiptum á íslensku sem Edvardas Paskevicius, BA í íslensku sem öðru máli og MA-nemi í upplýsingafræði, vann. Leiðbeinandi hans var Guðrún Theódórsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild.
- Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda sem Benedikt Atli Jónsson, BS-nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, vann. Leiðbeinendur hans voru Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild, Gísli Hreinn Halldórsson og Róbert Arnar Karlsson, starfsmenn sprotafyrirtækisins Oxymap, og Sveinn Hákon Harðarson, nýdoktor við Læknadeild. Verkefnið er unnið í samstarfi Oxymap, Háskóla Íslands og Landsspítala – háskólasjúkrahúss.
Auk þess eru verkefnin Aukin verðmæti úr vinnslu á karfa (Sebastes), sem Friðrik Þór Bjarnason, nemandi við Háskólann á Akureyri, vann, og Íslenskir þjóðstígar: stefnumótun um gönguleiðir á Íslandi, sem Gísli Rafn Guðmundsson, nemandi við Háskólann í Lundi, vann, tilnefnd til verðlaunanna.
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent að Bessastöðum sunnudaginn 22. febrúar.