Þrjú framúrskarandi verkefni hlutu viðurkenningu
Móey Pála Rúnarsdóttir hlaut í dag viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir lokaverkefni til bakkalársprófs við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ritgerð Móeyjar ber heitið: Uppeldissýn barnahjúkrunarfræðinga: Birtingarmynd í starfi og naut hún leiðsagnar Evu Harðardóttur, aðjunkts við Uppeldis- og menntunarfræðideild. Alls voru sjö ritgerðir tilnefndar.
Í umsögn dómnefndar segir: „Ritgerð Móeyjar Pálu er afar vel samin og skipulögð. Í henni er fjallað um efni sem alls ekki hefur verið mikið rannsakað, að minnsta kosti ekki í barnahjúkrunarfræði. Aðferðafræði höfundar sýnir vel að hún er vel að sér í hinum fræðilega grundvelli sem alltaf þarf að vera til staðar. Heimildir og notkun þeirra er afar traust og erfitt að finna nokkurn veikleika á verkinu.“
Í fyrsta sinn voru jafnframt veitt hvatningarverðlaunin fyrir tvær framúrskarandi ritgerðir. Fyrri ritgerðin ber heitið: Orðabókin mín. Hugmyndafræði og spjaldtölvuforrit (app) eftir þær Elínu Freyju Eggertsdóttur, nema í leikskólakennarafræði, og Þórdísi Helgu Ingibergsdóttur, nema í þroskaþjálfafræði. Leiðbeinandi þeirra var Sigurður Konráðsson. prófessor við Kennaradeild.
Í umsögn dómnefndar segir: „Höfundar taka sér fyrir hendur að búa til athyglisvert spjaldtölvuforrit og semja með því greinargerð um fræðilegan grundvöll og skýringar á verkinu. Allt er þetta afar vel gert og greinilega nostrað við hvert smáatriði. Hér er í raun og veru lagður grunnur að verkefni sem full ástæða er til að þróa áfram. Verkefnið er er hagnýtt frumlegt. Höfundar eru ekki hræddir við að fara ótroðnar slóðir en hafa jafnframt grundvöll í fræðum. Þá er ritgerðin skrifuð á kjarngóðri íslensku.“
Síðari ritgerðin er rituð á ensku og ber hún heitið: „Is Bilingual Education necessary in Icelandic schools? A response to global needs“ eftir Franshesku Echevarria Rojas, nema í alþjóðlegu námi í menntunarfræðum. Leiðbeinandi hennar var Renata Emilsson Peskova doktorsnemi við Menntavísindasvið.
Í umsögn dómnefndar segir: „Í ritgerðinni er afar viðkvæmt mál til umræðu eða staða enskrar tungu í íslensku samfélagi. Allir vita að hún hefur breyst verulega á undanförnum árum og færist sífellt nær því að verða annað tungumál við hlið íslensku og frá því að verða erlent mál eins og til dæmis spænska eða þýska. Á þessu hafa allir skoðun en höfundur hefur sig upp yfir tilfinningalegt þras og vegur og metur hvort og hvernig kennaramenntunarstofnun gæti brugðist við staðreynd sem þessari. Myndi það bæta skólastarf að taka upp tvítyngiskennslu?“
Viðurkenningarnar voru afhentar við hátíðlega athöfn þann 19. júní í Háskóla Íslands.
Myndir frá athöfninni.
Um Minningarsjóð Ásgeirs S. Björnssonar
Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar var stofnaður til minningar um Ásgeir sem var lektor í íslensku við Kennaraháskólann um árabil. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1989. Markmið sjóðsins er að efla ritsmíð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi B.Ed.-, BS- og BA-verkefni. Stjórn sjóðsins skipa: Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri, Kristín Lilliendahl lektor, Kristján Jóhann Jónsson dósent og Sigurður Konráðsson prófessor sem jafnframt er formaður stjórnar.