Þrír nýir lektorar ráðnir við Menntavísindasvið

Þrír nýir lektorar hófu nýverið störf á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Lektorarnir eru ráðnir til starfa við þrjár deildir sviðsins; Deild faggreinakennslu, Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og Deild menntunar og margbreytileika.
Eftirtalið starfsfólk var ráðið til starfa:
Ingólfur Gíslason, er með B.S.- og M.Paed.-gráðu í stærðfræði og Ph.D.-gráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands. Hann kenndi um árabil við Verzlunarskóla Íslands og Kvennaskólann í Reykjavík en hefur starfað sem aðjunkt við Menntavísindasvið frá 2016. Rannsóknaráhugi hans beinist einkum að orðræðu og samskiptum í stærðfræðinámi og -kennslu, menntun stærðfræðikennara, og notkun tölvutækni í stærðfræðinámi.
Jakob Frímann Þorsteinsson, hefur starfað sem aðjúnkt við Menntavísindasvið frá 2004. Hann lauk B.Ed.-gráðu 1993, M.Ed. 2011 og doktorsprófi í menntavísindum 2024. Hann hefur starfað á vettvangi frístundastarfs, í grunnskóla, í ferðaþjónustu og sem ráðgjafi og þjálfari, ásamt því að vera virkur í ýmiss konar félagsstarfi. Rannsóknir hans snúa að frístundastarfi, útimenntun, reynslumiðuðu námi, formgerðum náms og tengslum náms við náttúru og samfélag.
Jón Ásgeir Kalmansson, lauk doktorsprófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2015, meistaraprófi í heimspeki frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu árið 1995 og B.A. prófi frá Háskóla Íslands árið 1992. Undanfarin ár hefur hann verið aðjúnkt við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, og þar áður nýdoktor við sama svið. Rannsóknarsvið Jóns Ásgeirs er heimspeki í víðum skilning, einkum þó siðfræði og tengsl siðfræði og frumspeki.
Menntavísindasvið býður lektorana þrjá hjartanlega velkomna til starfa.
Þrír nýráðnir lektorar við Menntavísindasvið. Frá vinstri: Ingólfur Gíslason, Jakob Frímann Þorsteinsson og Jón Ásgeir Kalmansson. MYND/Samsett