Þjónusta sem gagnast nemendum og almenningi

Tannlæknaklíníkin við Tannlæknadeild HÍ við Vatnsmýrarveg 16 hefur verið starfandi síðan á níunda áratugnum. Þar getur fólk pantað tíma og fengið tannlæknaþjónustu hjá nemendum Háskóla Íslands undir leiðsögn kennara. Þjónustan er töluvert ódýrari en gengur og gerist hjá venjulegri tannlæknaþjónustu að sögn Svanhildar Ólafsdóttur, sem hóf störf sem kennari við Tannlæknadeild árið 2008 og tók við sem deildarstjóri 2016. Hún lýsir deildinni sem mikilvægri stofnun sem þjóni tvöföldum tilgangi.
„Deildin er góð fyrir samfélagið, bæði sem kennslustofnun og fyrir einstaklinga sem leita aðstoðar hjá okkur,“ segir Svanhildur um deildina, en þess má geta að í ár eru 80 ár frá því að kennsla hófst í tannlæknisfræði við Háskóla Íslands.
Svanhildur segir að þjónusta nemenda kosti u.þ.b. þriðjung af því sem það kostar að fara á venjulega tannlæknastofu. Kostnaður við þjónustu tannsmiða er þó ekki innifalinn þar sem þeir ákvarða eigið gjald.
Hver sem er getur óska eftir þjónustunni en þó geta ekki allir fengið aðstoð á klíníkinni. Þetta er vegna þess að nemendur leita að einstaklingum sem passa við þau verkefni sem þeir eru að læra hverju sinni. Þjónustan er í boði á meðan kennsla við deildina fer fram og því er ekki hægt að sækja þjónustuna allan ársins hring.
Tækifæri fyrir nemendur
Svanhildur segir að átta nemendur séu teknir inn í Tannlæknadeild á hverju ári og samtals séu nú 26 nemendur við nám í deildinni. Þetta er meðal annars vegna takmarkaðs rýmis, en 25 tannlæknastólar eru á deildinni. Einnig stunda tanntæknanemar þar starfsnám og útskrifast sem tanntæknar frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla.
„Æskilegast væri að allir sem vinna að tannheilsu væru á sama stað til að stunda þverfaglega teymisvinnu. Tannsmíðanemar eru að læra á hæðinni fyrir ofan okkur en tannfræðingar þurfa að sækja sitt nám erlendis eins og staðan er í dag. Þannig vantar mikilvægan hlekk í keðjuna á Tannlæknadeild,“ segir hún.
„Deildin er góð fyrir samfélagið, bæði sem kennslustofnun og fyrir einstaklinga sem leita aðstoðar hjá okkur,“ segir Svanhildur Ólafsdóttir, deildarstjóri Tannlæknadeildar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Nemendur sem komast inn og fá aðgang að alls konar tækjum og rýmum. Deildin er til dæmis með biðstofu sem tekur við fólki, tölvuherbergi sem heldur utan um gögn sjúklinganna, alls konar tannlæknastóla, sótthreinsirými, glaðloft og röntgenvélar. Í sótthreinsirýminu eru tvær stórar dauðhreinsivélar sem eru notaðar til þess að hreinsa áhöld. Vélin hreinsar áhöld með því að hita þau upp í 132°C í 3 mínútur sem eyðir öllum sýklum. Svanhildur segir þessar vélar mikið notaðar og að þær séu stærri en þær sem finnast á venjulegum stofum. Mikil áhersla sé á að halda klíníkinni hreinni, eins og á öllum venjulegum tannlæknastofum.
Nýtískulegur búnaður og örugg vinnuaðstaða
Hjá hverjum tannlæknastól á deildinni eru þrjú ljós. Þetta er forvarnarkerfi svo að kennarar viti hverjum þeir eigi að hjálpa. Græna ljósið þýðir að nemandi þurfi aðstoð frá starfsfólki, gult ljós er kall eftir kennara og rauða ljósið táknar neyðarástand. Ef nemandi ýtir á rauða ljósið heyrist ákveðið hljóð en það er til þess að tryggja það að starfsfólk geti brugðist hratt við. „Það hefur sjaldan gerst að eitthvað fari úrskeiðis á deildinni,“ segir Svanhildur og rifjar upp að frá því að hún byrjaði að vinna á deildinni hafi hún einungis orðið vitni að því að einn einstaklingur hafi fengið blóðsykursfall. Fyrir utan það hafi starfið á klíníkinni gengi afar vel.
Tannlæknaklíníkin í Háskóla Íslands sameinar nám og samfélagsþjónustu. Hún er ekki aðeins vettvangur fyrir nemendur til að þjálfa sig heldur býður hún líka almenningi aðgang að faglegri tannlæknaþjónustu á hagkvæmu verði. Þeir sem hafa áhuga á því að kynna sér starfið nánar eða mögulega bóka tíma geta farið inn á vefsvæði tannlæknaþjónustunnar.
Höfundur greinar: Alma Sól Pétursdóttir, nemi í blaðamennsku.
Tannlæknaklíníkin í Háskóla Íslands sameinar nám og samfélagsþjónustu. Hún er ekki aðeins vettvangur fyrir nemendur til að þjálfa sig heldur býður hún líka almenningi aðgang að faglegri tannlæknaþjónustu á hagkvæmu verði. MYND/Kristinn Ingvarsson