Skip to main content
15. janúar 2025

Þau eru tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Þau eru tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendur við Háskóla Íslands koma að fimm af þeim sex verkefnum sem tilnefnd eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem afhent verða við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 30. janúar næstkomandi. Verkefnin eru á fjölbreyttum fræðasviðum innan skólans.

Fram kemur á vef Rannís, þar sem tilkynnt var um tilnefningarnar, að verðlaunin séu veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti árið 2024. Alls fengu hátt í 100 verkefni styrk úr sjóðnum í fyrra og velur stjórn hans 10 verkefni sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. 

Sem fyrr segir eru sex verkefni tilnefnd í ár, þar af fimm sem nemendur HÍ koma að. Þau eru:

Eins og í sögu

Verkefnið snerist um að kenna íslensku og auka orðaforða með skapandi aðferðum, aðallega í gegnum ritun og frásögn, og hvetja nýja Íslendinga til þess að láta rödd sína hljóma á íslensku. Haldin voru alls sex örnámskeið á Borgarbókasafnin þar sem skáldgleðin var við völd. Eitt þema var tekið fyrir á hverju námskeiði og voru námskeiðin þátttakendum að kostnaðarlausu. Markhópurinn var nýir Íslendingar, íbúar höfuðborgarsvæðisins með íslensku sem annað mál. Fyrir hvert námskeið var útbúið námsefni; orða- og hugtakalistar ásamt kveikjum og stuttum örsögum sem hópurinn fór yfir saman. Markvisst var unnið með risamálheild íslenskrar tungu auk orðalistans LÍNÓ II, svokölluð námsorð í íslensku tungumáli.

Einnig fólst verkefnið í að miðla reynslu og þekkingu til þeirra sem kenna reglulega íslensku sem annað tungumál. Vísbendingar innan tungumálafræða sýna að ritun og þá sérstaklega frjáls ritun sé vannýtt en árangursrík aðferð við kennslu. Árangurinn var kynntur kennurum hjá Mími símenntun og í námsbrautinni íslenska sem annað mál við HÍ, þeim til frekari hvatningar, fræðslu og sköpunar.

Verkefnið unnu Berglind Erna Tryggvadóttir og Þórunn Rakel Gylfadóttir, nemar í ritlist í Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Rúnar Helgi Vignisson, prófessor við ritlist.

Fataframleiðsla framtíðar

Þróuð var ný aðferð við framleiðslu á fatnaði. Í stað þess að klippa fataefni eftir sniði og sauma saman er notast við tvívítt form sem náttúrulegu fljótandi gelatínefni er hellt í. Í stað þess að mæla fataefni í millimetrum er það því mælt í millilítrum og þar af leiðandi er hægt að mæla út með nákvæmari hætti hversu mikið magn af hráefni þarf í hverja flík. Þegar efnið hefur þornað verður það að lífrænu plastlíki og hægt að taka það úr mótinu og fullvinna flíkina.

Markmið verkefnisins er tvíþætt, að draga úr efnissóun sem nú verður við framleiðslu á fatnaði og gera efnið niðurbrjótanlegt svo það samlagist náttúrunni þegar líftíma þess lýkur. Markmið verkefnisins er því að þróa nýtt vistvænt textílefni sem hefur fullnýtingu að leiðarljósi.

Verkefnið vann Íris Lind Magnúsdóttir, nemi í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Valdís Steinarsdóttir hönnuður var umsjónarmaður verkefnisins ásamt Má Másyni, prófessor í lyfjafræði, og Vivien Nagy, doktor frá Háskóla Íslands, sem eru stofnendur fyrirtæksins Minamo ehf.

Íslandssaga skynfæra: Sjálfsbókmenntir á Íslandi

Verkefnið snýst um bókarskrif nemanda og leiðbeinanda um skynjun Íslendinga á hinni löngu 19. öld og hvernig þeir beittu skynfærum sínum í daglegu lífi. Bókin er skrifuð innan sviðs sögu tilfinninganna (e. history of emotions) sem hefur verið vaxandi rannsóknaráhersla í sagnfræði víða erlendis en hefur lítið verið sinnt hér á landi. Til þess að nálgast þetta óvenjulega rannsóknarsvið var unnið með stóran gagnagrunn um sjálfsbókmenntir (e. egodocuments) sem tekinn var saman á tíunda áratug 20. aldar af leiðbeinanda verkefnisins. Honum var komið á stafrænt form í tengslum við rannsókarverkefnið og hann stórlega aukinn. 

Sjálfsbókmenntir eins og sjálfsævisögur, endurminningarrit, samtalsbækur, sendibréf og dagbókarskrif hafa verið snar þáttur í bók- og handritamenningu Íslendinga á því tímabili sem rannsóknin tekur til. Um er að ræða mikið efni sem lítið sem ekkert hefur verið unnið með hingað til þegar virkni skynfæra landsmanna er til rannsóknar eða saga tilfinninganna 

Í bókinni sjálfri – Íslandssaga skynfæra: Sjálfsbókmenntir á Íslandi – er fjallað almennt um skynfæri fólks og hvernig þau eru háð sögulegum aðstæðum. Megináherslan er á lykt í sögulegu ljósi og hvernig hún fór að leika stærra og stærra hlutverk þegar nær dró samtíma okkar

Verkefnið vann Ragnhildur Björt Björnsdóttir, BA-nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu.

Lífupplýsingafræðileg greining á kælisvari frumna

Tímabundinn súrefnisskortur í heila getur valdið langvarandi taugaskaða. Marksækin hitastýring (e. targeted temperature management) er inngrip sem felst í því að lækka líkamshitastig sjúklinga niður í væga ofkælingu (32-35°C) til að vernda heilann eftir súrefnisskort. Væg ofkæling virkjar taugaverndandi viðbragð í heilanum og gerir hann þannig þolnari fyrir súrefnisskorti. Vandamálið við marksækna hitastýringu er að hún hefur í för með sér alvarlegar aukaverkanir. Markmið verkefnisins var að kortleggja þætti sem gegna lykilhlutverki í væga ofkælingarviðbragðinu svo unnt verði að virkja viðbragðið með lyfjum í stað ofkælingar.

Í dag hafa fimm þættir verið staðfestir sem hlutar af væga ofkælingaviðbragðinu og hafa aðstandendur verkefnisins uppgötvað eitt lyf sem virðist virkja ferilinn en verkunarhátturinn er óljós. Í verkefninu var þróuð lífupplýsingafræðileg greining sem nýtir opinber RNA-raðgreiningargögn frá alþjóðlegum gagnasöfnum. Greiningaraðferðin getur nýst til að svara ýmsum öðrum spurningum með því að nýta fyrirliggjandi rannsóknargögn og spara þannig bæði tíma og kostnað áður en lengra er haldið í frekari tilraunum. Með þessu móti má flýta uppgötvunum og draga úr þörf fyrir dýrarannsóknir.

Niðurstöður eru afar lofandi og benda til þess að þættir sem miðla m6A-breytingum á mRNA-umritum gegni lykilhlutverki í stjórnun kælisvarsins en þessu hefur ekki verið lýst áður. Það sem meira er, lyf sem áður fannst í lyfjaskimun, virðist virkja þetta sama svar. Rannsóknir virðast styðja að verkunarháttur lyfsins gæti grundvallast á m6A-breytingum. Þessar niðurstöður opna því á möguleikann að færa þetta lyf í dýratilraunir og síðan í klínískar prófanir á mönnum.

Verkefnið vann Valdimar Sveinsson, læknanemi við Háskóla Íslands, undir leiðsögn Kimberley Anderson rannsóknarstofustjóra og Hans Tómasar Björnssonar, prófessors við Læknadeild.

Þarahrat

Verkefnið snýst um að þróa ný, staðbundin og niðurbrjótanleg efni úr lífrænum úrgangi frá fyrirtækinu Algalíf sem ræktar smáþörunga fyrir framleiðslu á bætiefninu Astaxantín. Lífræni úrgangurinn er í formi hrats sem fellur til í lok framleiðsluferlisins en það hefur ekki verið nýtt og er ýmist fargað eða gefið í landbúnað sem áburður. Það er hins vegar ekki hentugur áburður vegna skorts á næringarefnum og því vert að skoða betri nýtingu á þeim 95 tonnum sem falla til á ári hverju af þessu efni. Markmið verkefnisins er að þróa nýjan, umhverfisvænan efniðvið og lengja líftíma hratsins með því að bæta skrefi við hringrás þess. Í stað niðurbrots fær það nýjan tilgang t.d. sem efniviður í pakkningar eða byggingarefni og gæti e.t.v. orðið staðgengill mengandi efna nútímans.

Fjölbreytt efni og aðferðir hafa verið þróuð, eins og eldfast samsett efni og flísar, en í tilraunaferlinu hafa fleiri nýtingarmöguleikar bæst við sem verið er að kanna betur, svo sem landgræðsla og endurheimt lífríkis, tímabundinn arkitektúr og fjölbreytt vöruþróun. 

Verkefnið unnu Sólrún Arnarsdóttir, MA-nemi í Sustainable Cities við Norman Foster Institute í London og Universidad Autonoma de Madrid, og Ísafold Kristín Halldórsdóttir, efnaverkfræðinemi við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi er Jan Eric Jessen hjá Algalíf.

Auk þess er verkefnið „One man's trash is another man's treasure“, sem nemendur við Háskólann á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands unnu, tilefnt til verðlaunanna. Í því var rannsakað hvernig hægt er að nota lífkol, viðarösku, lífrænan úrgang og afurðir Bokashi-aðferðarinnar til þess að bæta íslenskan jarðveg til ræktunar. 

Nánar um tilnefnd verkefni og verðlaunin á vef Rannís.
 

""