Taka þátt í evrópsku verkefni um skóla án aðgreiningar
Fulltrúar frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands taka þátt í evrópsku samstarfsverkefni um skóla án aðgreiningar um þessar mundir en hópurinn hittist hér á landi í nóvember síðastliðnum. Verkefnið nefnist TdiverS og er styrkt af Lifelong Learning Programme, Comenius og unnið í samvinnu við skólafólk frá Þýskalandi, Litháen, Lúxemborg, Spáni og Svíþjóð. Þar er lögð áhersla á að skoða hvernig námsgreinakennarar skipuleggja kennslu fjölbreyttra nemendahópa í grunnskólum.
Hópur sérfræðinga kemur að verkefninu en fulltrúar Menntavísindasviðs eru Hafdís Guðjónsdóttir prófessor, Jóhanna Karlsdóttir lektor og Edda Óskarsdóttir doktorsnemi auk fjögurra íslenskra grunnskólakennara. Verkefnið byggist á rannsókn sem gerð hefur verið hér á landi í fjórum grunnskólum og byggist á eigindlegri aðferðafræði sem fer fram með vettvangsathugunum og viðtölum við kennara. Fyrstu niðurstöður benda til að kennarar bregðist við þörfum nemenda á margs konar hátt með því að skipuleggja kennslu sem tekur mið af einstaklingnum um leið og þeir leggja áherslu á samkennd og samvinnu.
Stefnt er að því að afrakstur verkefnisins verði myndbönd sem ætluð eru til notkunar í menntun kennara.