Styrkir til kennara sem sérhæfa sig í starfstengdri leiðsögn
Fyrr í vor kynnti mennta- og menningarmálaráðherra aðgerðir sem miða að fjölgun kennara en í þeim felst meðal annars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunnskólakennaranemum á lokaári launað starfsnám. Enn fremur fá starfandi leik- og grunnskólakennarar styrk til að mennta sig í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf. Markmiðið er að fleiri sæki sér sérhæfingu á þessu sviði til þess að skólar verði betur í stakk búnir til að styðja við kennaranema og nýútskrifaða kennara.
Starfstengd leiðsögn og kennsluráðgjöf er nám á meistarastigi sem er ætlað kennurum á öllum skólastigum og öðru fagfólki á sviði uppeldis- og menntunar. Í boði er fullt meistaranám til M.Ed.-gráðu en einnig er hægt að taka 30 eininga viðbótarnám. Í náminu er sjónum einkum beint að hlutverki kennsluráðgjafa, skólaþjónustu og kennara sem annast leiðsögn í starfi, t.d. til kennaranema í vettvangsnámi, nýrra kennara eða samkennara í skólaþróun.
Anna Rósa Sigurjónsdóttir, leikskólastjóri er ein þeirra sem hefur verið í náminu og segir það hafa veitt góða innsýn í hugmyndafræði starfstengdrar leiðsagnar. „Námið eflir þætti sem mikilvægt er að hafa á valdi sínu til að takast á við þær áskoranir sem fylgja leiðsagnarstarfi. Ég tel að námið nýtist vel kennurum sem veita nemum í vettvangsnámi og nýliðum í starfi leiðsögn.“
Hægt er að sækja um viðbótarnám í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf til 5. júní næstkomandi. Sjá nánar HÉR.
Sjá nánar um námið í kennsluskrá.