Skip to main content
30. október 2020

Stöndum saman

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (30. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Nú liggur fyrir að sóttvarnaraðgerðir verða hertar á landsvísu frá miðnætti. Helsta breytingin er sú að einungis tíu manns mega koma saman. Þetta hefur veruleg áhrif á okkar starf en eftir sem áður er stefnt að verklegri kennslu miðað við þær forsendur sem nýju reglurnar leyfa. Byggingar verða áfram opnar en fólk er hvatt til að koma ekki inn í byggingar á svæðinu að óþörfu. Starfsfólk er hvatt til að fylgja án undantekninga reglum um fjöldatakmarkanir og fjarlægðamörk og haga tilhögun vinnu eftir samráði við næsta stjórnanda. Stjórnvöld vinna að reglugerð um starfsemi háskóla og verður hún birt núna um helgina. Við munum senda upplýsingar um nýjar reglur um leið og þær verða birtar. 

Nú er nokkuð liðið á haustmisseri og margir farnir að huga að námsmati. Ákvarðanir um tilhögun lokaprófa í desember eru í undirbúningi og verða tilkynntar á næstunni. Að sjálfsögðu verður tekið tillit þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru uppi. 

Í ljósi stöðunnar hefur aldrei verið jafnáríðandi að við stöndum saman í baráttunni við heimsfaraldurinn. Stærstan hluta ársins hefur allt okkar starf litast af COVID-19 og þetta er sannarlega mikil áskorun fyrir okkur öll. Við vinnum okkur í haginn með seiglu og samstöðu, markvissum sóttvörnum og með því hlúa hvert að öðru. Hugum sérstaklega að þeim sem verða fyrir mestu höggi í faraldrinum. 

Í vikunni fengum við fregnir af því að Háskóli Íslands væri á níu listum tímaritsins Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum. Skólinn hefur aldrei verið á fleiri slíkum listum. Þessu ber auðvitað að fagna en þarna blasir við árangur af starfi ykkar sem hefur verið rækt af miklum metnaði. Það er svo sannarlega þakkarvert.  

Nú er hafin mikilvæg vinna við mótun heildarstefnu Háskóla Íslands fram til ársins 2026, HÍ26. Við stefnumótunina verður lögð rík áhersla á víðtækt samráð innan og utan háskólasamfélagsins. Þessi vinna verður í öndvegi á háskólaþingi sem er á dagskrá eftir tvær vikur. Ég hvet ykkur, kæru nemendur og samstarfsfólk, til að hafa áhrif á þessa vinnu um leið og leitað verður samráðs við ykkur.

Á þessum flóknu tímum er mikilvægt að lyfta andanum eftir föngum. Til þess eru margar leiðir og mikilvægt að nýta dagsbirtuna til útivistar og njóta menningar eins og unnt er. Á dögunum hófust aftur Háskólatónleikar og sló gítarleikarinn Mikael Máni fyrstu hljómana á þessu hausti. Tónleikunum var streymt úr Hátíðasal og tókust þeir afar vel. Þeir sem misstu af þessum viðburði geta notið hans á vefnum í miklum gæðum. 

Nýtt orð er nú á vörum margra, COVID-þreyta, og mörgum er tíðrætt um þær hömlur sem við þurfum að taka á okkur við þessar krefjandi aðstæður. Þetta er afar skiljanlegt en höfum í huga orð Nóbelskáldsins Bob Dylan sem sagði að hetja væri í raun sú manneskja sem skildi þá miklu ábyrgð sem frelsinu fylgir.  

Njótið helgarinnar eins og nokkur er kostur. Stöndum saman. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

""