Stefnu- og gæðamál í brennidepli á sviðsþingi Menntavísindasviðs

Vel sótt sviðsþing Menntavísindasviðs fór fram 9. desember í fyrsta sinn í Sögu, nýju húsnæði Menntavísindasviðs. Yfirskrift sviðsþings að hausti voru stefnu- og gæðamál og fólst seinni hluti þingsins í tvískiptri hópavinnu.
Markmið sviðsþingsins var að eiga sameiginlega umræða um gæði starfs og var fókus á kjarnahlutverk sviðsins: nám, kennslu, rannsóknir, samstarf og samfélagslegt framlag Menntavísindasviðs. Jafnframt að skoða hvað einkennir gott starf og hugleiða hvað þarf að efla eða þróa frekar á sviðinu okkar.
Eva Harðardóttir, lektor við Deild menntunar og margbreytileika stýrði þinginu að þessu sinni og bauð Gunnar Ásgrímsson, forseta sviðsráðs nemenda fyrstan í pontu þar sem hann kom sjónarmiðum nemenda á framfæri. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs lagði grunn fyrir hópavinnu og fjallaði um stöðu á vinnu við stefnu- og gæðamál í starfsemi Menntavísindasviðs auk þess sem hún ræddi stuttlega um fjármál sviðsins, áherslur í kennslu og námi, rannsóknum og rannsóknamiðlun sviðsins. Þess ber að geta að Þór Hauksson, stefnu- og gæðastjóri Háskóla Íslands var sérstakur gestur þingsins.
Lára Rún Sigurvinsdóttir, mannauðsstjóri Menntavísindasviðs hélt stutt erindi þar sem hún tók upp þráðinn frá síðasta sviðsþingi sem var tileinkað vinnustaðamenningu og fór yfir mikilvæga punkta sem lúta að góðri vinnustaðamenningu. Fundarstjóri ásamt Sverri Óskarssyni, stefnufulltrúa MVS áttu því næst sameiginlega umræðu með starfsfólki sviðsins um gæði starfs Menntavísindasviðs, skoðað var hvað einkennir gott starf og hugleitt hvað þarf að þróa frekar á sviðinu okkar.
Í hópavinnu voru eftirfarandi málefni rædd; rannsóknir og rannsóknarumgjörð, nám og virkni nemenda, kennsla og kennslufyrirkomulag, samstarfsumhverfi og vinnustaðamenning og samfélagsleg áhrif og nýsköpun en gögnin úr hópavinnu munu nýtast beint í starfsáætlun Menntavísindasviðs 2026.
Áður en þingi var slitið hélt Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði erindi um félagslega töfra háskólans sem var gagnlegt innlegg fyrir vinnustaðinn sem er nýfluttur á aðalsvæði Háskóla Íslands.






