Stefnt að staðkennslu í HÍ – Förum að öllu með gát
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (3. janúar 2022):
„Gleðilegt ár, kæru nemendur og samstarfsfólk.
Ég vona innilega að þið hafið notið hátíðanna og náð að hvílast vel eftir krefjandi haustmisseri.
Kennsla í Háskóla Íslands hefst á morgun og í næstu viku samkvæmt kennsluáætlun. Við munum halda starfi skólans áfram á eins hefðbundinn hátt og nokkur er kostur í samræmi við sóttvarnarreglur heilbrigðisyfirvalda.
Stefnt er að staðkennslu í HÍ eftir því sem við verður komið en útfærsla á kennslu fer eftir nánari skilgreiningu á hverju fræðasviði. Sem fyrr verður leitast við að koma til móts við þá nemendur sem geta ekki mætt í tíma vegna einangrunar eða sóttkvíar. Ég hvet nemendur til að fylgjast með tilkynningum kennara sinna og deilda varðandi tilhögun kennslunnar á fyrstu dögum nýs skólaárs.
Hægt verður að útfæra bæði hefðbundna staðkennslu og verklega kennslu miðað við þær sóttvarnarreglur sem nú eru í gildi en þær setja okkur þessar skorður:
- Nándarmörk: Almennt gildir 2 metra regla í húsakynnum HÍ að frátöldum kennslustofum. Ef ekki er hægt að virða þessi mörk er notuð andlitsgríma.
- Í kennslustofum á að leitast við að hafa minnst 1 metra milli nemenda, að öðrum kosti ber að nota andlitsgrímu.
- Hámarksfjöldi nemenda er 50 í sama rými. Blöndun á milli hópa er heimil.
- Hámarksfjöldi starfsfólks er 20 í sama rými. Starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma.
- Í sameiginlegum ferðarýmum, svo sem við innganga, í anddyri og á göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun.
- Til að minnka smithættu er eindregið mælst til þess að fólk beri andlitsgrímur á göngum skólans.
- Fólk er hvatt til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.
- Starfsfólk er hvatt til að haga vinnu í samráði við næsta stjórnanda.
- Hvatt er til þess að fundir verði rafrænir.
Vissulega vildum við hafa hlutina á annan veg á nýju ári en við þekkjum þær hömlur vel sem nú eru í gildi. Við höfum gengið í gegnum svipað áður og sýnt ótrúlegan sveigjanleika og seiglu.
Ég hvet ykkur öll til að fara að ráðum sóttvarnarlæknis og þiggja bóluefni og örvunarskammt svo fljótt sem verða má. Rannsóknir sýna ótvíræða virkni bóluefna. Jafnframt legg ég áherslu á að allir hali niður rakningarappi Landlæknis. Slíkt hjálpar við smitrakningu.
Ég hvet ykkur kæru nemendur, ekki síst þau ykkar sem eruð að stíga fyrstu skrefin í HÍ, til að renna yfir uppbyggileg bjargráð varðandi nám á sérstæðum tímum.
Hugum vel að okkur sjálfum í upphafi ársins og líka að þeim sem eru næst okkur.
Gangi ykkur vel á nýju ári, kæru nemendur og samstarfsfólk.
Jón Atli Benediktsson, rektor“