Skip to main content
12. október 2021

Stefna að stofnun rannsóknaseturs í sameinuðu sveitarfélagi í Suður-Þingeyjarsýslu 

Stefna að stofnun rannsóknaseturs í sameinuðu sveitarfélagi í Suður-Þingeyjarsýslu  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands, Svartárkots menningar — náttúru, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að vinna í sameiningu að stofnun rannsóknaseturs á sviði umhverfishugvísinda í sameinuðu sveitarfélagi í Suður-Þingeyjarsýslu. Undirritunin fór fram í gamla grunnskólanum á Skútustöðum (Gíg) í Mývatnssveit þar sem stefnt er að því að rannsóknasetrið verði til húsa.

Viljayfirlýsinguna undirrituðu þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ragnhildur Sigurðardóttir fyrir hönd Svartárkots menningar — náttúru, Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, og Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar. Markmiðið með stofnun setursins er að efla hugvísindarannsóknir á sviði umhverfismála, skapa vettvang fyrir þverfaglegt samstarf á því sviði og efla atvinnulíf sveitarfélaganna tveggja sem sameinast munu á næsta ári. Lögð verður áhersla á markvissa miðlun þekkingar, samtal milli almennings og fræðasamfélags og að komið verði á fót öflugri miðstöð fyrir skapandi og gagnrýna umræðu um umhverfismál.

Samstarfið miðar að því að á næstu mánuðum fari fram vinna við fjármögnun og annan undirbúning stofnunar setursins, sem verður samstarfsvettvangur Svartárkots menningar - náttúru og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.  Undirbúningur stofnunar rannsóknaseturs Háskóla Íslands á sviði umhverfishugvísinda er hafinn en Svartárkot menning — náttúra hefur starfað að rannsóknum og haldið námskeið á sviði umhverfishugvísinda í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit síðustu 15 ár í samstarfi við heimamenn og alþjóðlegt teymi vísindamanna.

Fyrirhugað er að setrið verði til húsa í gamla grunnskólanum á Skútustöðum í Mývatnssveit (Hótel Gíg), sem Ríkiseignir festu kaup á í upphafi þessa árs. Þar verða einnig til húsa fjórar stofnanir sem starfa á sviði umhverfismála: Vatnajökulsþjóðgarður, Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Landgræðslan.

 

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í gamla grunnskólanum á Skútustöðum. Frá vinstri: Sveinn Margeirsson, Dagbjört Jónsdótti, Jón Atli Benediktsson og Ragnhildur Sigurðardóttir.