Stafræn væðing og breytingastjórnun á starfsþjálfunardögum HÍ
Á fimmta tug starfsmanna við erlenda samstarfsskóla tekur þátt í starfsþjálfunardögum við Háskóla Íslands sem nú standa yfir. Þátttakendur starfa við alþjóðamál í háskólum og koma frá fimmtán þjóðlöndum.
Þema starfsþjálfunardaga í ár er Mobility and Digitalisation: Benefits and Challanges of Change þar sem sjónum verður beint að innleiðingu stafrænna ferla innan Erasmus+ áætlunarinnar og þeim ávinningi og áskorunum sem breytingarnar hafa í för með sér.
Harpa Sif Arnarsdóttir, sérfræðingur mennta- og menningarmálaráðuneytisins hjá Framkvæmdastjórn ESB, fer yfir stöðuna á innleiðingu stafrænna ferla innan Erasmus+ og næstu skref. Rune Todnem By, prófessor við Staffordshire Business School og sérfræðingur í breytingastjórnun, fjallar um hvernig við fáum fólk í lið með okkur til að innleiða breytingar innan háskóla.
Formleg dagskrá hófst í gær með ávarpi frá Jóni Atla Benediktssyni rektor og kynningum frá Friðriku Harðardóttur, forstöðumanni Skrifstofu alþjóðasamskipta, og Jóni Erni Guðbjartssyni, sviðstjóra markaðs- og samskiptasviðs. Þá tók Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskólans, við hópnum og fór yfir sögu Íslands í hnotskurn.
Starfsþjálfunardagarnir standa í þrjá daga og er fjölbreytt dagskrá í boði, fyrirlestrar, vinnustofur, leiðsögn um háskólasvæðið, móttaka og fleira. Dagskránni lýkur svo með ferð um Reykjanesið á föstudeginum.
Skrifstofa alþjóðasamskipta stendur fyrir starfsþjálfunardögunum en dagskráin er sniðin að þeim sem vinna við alþjóðamál bæði í Háskóla Íslands og erlendum samstarfsskólum Háskólans.