Skip to main content
14. júlí 2025

Sóttu námskeið um gervigreind í kennslu og doktorsnám

Ferðafélagar frá HÍ í Tarragona

Dagana 16. til 20. júní 2025 tóku átta fulltrúar frá Háskóla Íslands þátt í tveimur spennandi Erasmus+ BIP námskeiðum sem haldin voru við samstarfsskóla HÍ innan Aurora-samstarfsnetsins, Universitat Rovira i Virgili í hinni sólríku borg Tarragona á Spáni. Þar komu saman um sjötíu þátttakendur frá fimmtán löndum, allir með það að markmiði að læra meira um gervigreind í kennslu eða styrkja sig sem doktorsnemar.

Gervigreind eða doktorsnám?

Fimm úr íslenska hópnum tóku þátt í námskeiði sem fjallaði um hvernig nota megi gervigreind í háskólakennslu en hinir þrír völdu doktorsnemanámskeiðið sem reyndist sannarlega krefjandi.

Dagskrá námskeiðanna var ólík í takt við viðfangsefnin. Hún stóð frá kl. 9 á morgnana fram í eftirmiðdag hjá þeim sem sóttu námskeið í gervigreind en doktorsnemarnir sátu á skólabekk allt til kl. 18 og fengu þar gnótt af fróðleik og verkfærum til að takast á við doktorsnámið.

Tækifæri til að tengjast – og njóta

Þrátt fyrir mismunandi dagskrá gáfust þátttakendum í námskeiðunum tækifæri til að kynnast hvert öðru og borginni betur. Boðið var upp á leiðsögn um Tarragona og málsverðir voru nýttir til að deila hugmyndum, sögum og tapas. Óvenjumikill hiti á svæðinu setti svip sinn á námskeiðið en bros og góður félagsskapur gerðu gæfumuninn þannig að allir fóru heim með nýja þekkingu, tengsl og hlýjar minningar.

Ferðafélagar frá Hí Tarragona