Skip to main content
22. febrúar 2021

Soffía Auður hlýtur styrk vegna vefs um íslenskar skáldkonur

Soffía Auður hlýtur styrk vegna vefs um íslenskar skáldkonur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði, var meðal þeirra akademísku starfsmanna skólans sem fengu styrk til að styðja við virka þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna og sérþekkingar.

Soffía Auður og samstarfskonur hennar, þær Steinunn Inga Óttarsdóttir og Jóna Guðbjörg Torfadóttir, hlutu styrkinn vegna vefsins Skáld.is sem opnaði haustið 2017. Vefurinn Skáld.is stefnir að því að verða stærsti og öflugasti gagnabanki um bókmenntir íslenskra kvenna frá upphafi til samtímans. Skáldatalið telur núna færslur um 316 skáldkonur, auk annars efnis.. Enn liggja þó margar skáldkonur óbættar hjá garði og nýjar bætast við á hverju ári. Markmiðið er að vefurinn verði mikilvægur og umfangsmikill gagnabanki um íslenskar kvennabókmenntir sem geti nýst öllum þeim sem leita upplýsinga og efnis um íslenskar skáldkonur, ekki síst kennurum og nemendum á efri skólastigum

Styrkirnir sem Háskólinn veitir miða að því að skapa starfsfólki aukið svigrúm til samtals við samfélagið. Náið samstarf við aðila utan Háskólans hefur frá fyrstu tíð verið mikilvægur þáttur í starfsemi skólans og er þessum styrkjum ætlað að efla þann þátt starfsemi Háskóla Íslands enn frekar. 

 

Soffía Auður Birgisdóttir