Sex stúdentar til sumarnáms við Columbia-háskóla
Sex nemendur Háskóla Íslands halda senn til sumarnáms við Columbia-háskóla í New York-borg í Bandaríkjunum. Tveir nemendur hljóta að þessu sinni styrk til námsins, þær Brynja Jónbjarnardóttir, nemi í hagfræði, og Ivana Anna Nikolic, nemi í lögfræði. Auk þeirra halda Jana María Guðmundsdóttir, nemi í ítölsku, Nína Hjördís Þorkelsdóttir, nemi í lögfræði, Sara Björk Másdóttir, nemi í tölvunarfræði, og Silja Rán Arnarsdóttir, nemi í lögfræði, til náms við Columbia í sumar.
Þetta er fjórða árið sem sumarnám við Columbia-háskóla býðst nemendum Háskóla Íslands, en fyrri þátttakendur hafa borið mikið lof á námið. Námstímabilið er sex vikur og taka nemendur námskeið sem þeir fá metin til eininga í námi sínu við Háskóla Íslands. Columbia-háskóli er í hópi Ivy League-háskólanna í Bandaríkjunum, en það eru átta rótgrónir og virtir háskólar sem hafa raðað sér efst á lista yfir bestu skóla í heimi.