Skip to main content
17. apríl 2020

Seiglan sigrar

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú er lokið heilum mánuði í samkomubanni og enn ein vikan að baki þar sem við höfum unnið við aðstæður sem brátt geta ekki lengur kallast nýjar. Eftir sem áður er þetta samt tímabundið og heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að fyrsta skref til afléttingar samkomubanni verður stigið þann 4. maí. Mikilvægt er þó að fylgja áfram af festu leiðbeiningum stjórnvalda um almannavarnir. 

Byggingar okkar verða að óbreyttu opnaðar að nýju þann 4. maí. Þrátt fyrir það verða engin próf í húsakynnum skólans, þau verða öll rafræn. Unnið er að því að tryggja að skólinn uppfylli skilyrði samkomubannsins, sem kveða á um að ekki séu fleiri en 50 saman í hverju rými og að tveir metrar verði alltaf á milli fólks. Þessi tilslökun opnar líka á verklega handleiðslu kennara auk vettvangsnáms og -ferða. Þá geta meistara- og doktorsvarnir farið fram sé skilyrðum fylgt um fjarlægð milli fólks. Við erum líka að skoða með hvaða hætti brautskráningu verði háttað við þessar aðstæður. 

Við höfum lært margt á undanförnum mánuði og tekið upp margar nýstárlegar aðferðir í starfi okkar. Hluti af því er fjarkynning á framhaldsnámi sem hefur tekist einkar vel. Þar hefur öllum gefist færi á að kynna sér hartnær hundrað leiðir í framhaldsnámi án þess að víkja frá tölvunni eða snjalltækinu. 

Háskóli Íslands hefur ákveðið að aflýsa starfi Háskóla unga fólksins sem fram átti að fara í júní og að fresta einnig ferðum Háskólalestarinnar a.m.k. fram á haust. Þetta er gert vegna takmarkana sem settar verða á samskipti. Það er miður að fresta þurfi þessum verkefnum en Háskólinn hefur unnið að kappi með stjórnvöldum, landlækni og sóttvarnalækni við að draga úr smithættu og vill með þessu vinna í þágu öryggis allra, ekki síst unga fólksins.

Það er ykkur að þakka, kæru nemendur og samstarfsfólk, hversu vel hefur tekist til að draga úr smithættu í Háskóla Íslands. Auðvitað hefur þetta tekið á og við finnum öll til óþreyju. Mikil þreyta sækir stundum að okkur og við þráum það sem við höfðum. En til þess að fagna frelsinu á ný, og sigri á þessum illvíga sjúkdómi, verðum við að sýna þá seiglu sem einkennt hefur þessa þjóð.  

Gleymum okkur ekki. Þótt við sjáum til lands þá höfum við það ekki enn undir fótum. Stöndum saman og sigrum. 

Besta kveðja, 

Jón Atli Benediktsson, 
rektor Háskóla Íslands“

Háskólatorg