Skip to main content
26. apríl 2018

Samstarfsyfirlýsing um menntun fyrir alla endurnýjuð

""

Yfirlýsing um menntun fyrir alla á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi var endurnýjuð í ráðherrabústaðnum á dögunum en að henni koma fulltrúar ríkis og sveitarfélag ásamt öðrum hagsmunaaðilum í skólasamfélaginu. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði samninginn fyrir hönd kennaramenntunarstofnana í landinu.

Yfirlýsingunni fylgir skuldbinding um að styðja við langtímaþróun menntastefnu hér á landi um menntun fyrir alla. Til grundvallar samstarfinu liggur aðgerðaáætlun sem byggist á tillögum úr úttektarskýrslu Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir frá árinu 2017.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað víðtækt samstarf ríkis og sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila skólasamfélagsins um greiningu á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla/menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi.

Samstarfið byggist á viljayfirlýsingu lykilaðila um að ráðast í úttekt á menntakerfinu og var Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir (e. European Agency for Special Needs and Inclusion) fengin til verksins á árinu 2015. Við kynningu á niðurstöðum úttektarinnar 2. mars 2017 undirrituðu sömu aðilar yfirlýsingu um samstarf við eftirfylgni úttektarinnar með það að markmiði að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Mennta- og menningarmálaráðherra telur tímabært að endurnýja slíka samstarfsyfirlýsingu með það að leiðarljósi að nýta niðurstöður úttektarinnar til að efla menntun fyrir alla. Einnig taldi ráðherra mikilvægt að í þann hóp bættist ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála vegna þeirra málefna sem heyra þar undir ásamt fulltrúa kennaramenntunar.

Eftirtaldir staðfestu yfirlýsinguna af hálfu annarra samstarfsaðila: Lilja Alfreðsdóttir fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Þór Þórarinsson fyrir hönd félags- og jafnréttismálaráðherra af hálfu velferðarráðuneytis, Sigurður Ingi Jóhannsson fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Anna María Gunnarsdóttir fyrir hönd Kennarasambands Íslands, Jón Atli Benediktsson, rektor fyrir hönd kennaramenntunarstofnana, Olga Lísa Garðarsdóttir fyrir hönd Skólameistarafélags Íslands og Sigrún Edda Eðvarðsdóttir fyrir hönd Heimilis og skóla.

Samstarfsyfirlýsing ásamt tillögum stýrihóps um fyrstu aðgerðir frá 30. júní 2017.

Jón Atli Benediktsson, Anna María Gunnarsdóttir, Karl Björnsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Alfreðsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Þór Þórarinsson, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir og Olga Lísa Garðarsdóttir.