Samstarfsskóli vikunnar - University of Wisconsin-Madison
Samstarfsskóli vikunnar er University of Wisconsin-Madison en Háskóli Íslands er með skiptinámssamning í flestum námsgreinum við skólann. UW-Madison er meðal þeirra þriggja háskóla í Bandaríkjunum sem setja mesta fjármuni í rannsóknir og 25 nóbelsverðlaunahafar hafa lært eða starfað við skólann. Háskólinn er í 43. sæti yfir bestu háskóla heims á lista Times Higher Education.
Skólanum er skipt upp í þrettán svið og nemendur eru nær 44.000, þar af tæplega 30.000 grunnnemar og tæplega 14.000 framhaldsnemar. Á sjöunda þúsund erlendir nemar stunda nám við skólann.
Íþróttalið skólans heitir Badgers og keppir í 25 íþróttagreinum. Undanfarin ár hafa margir nemendur HÍ farið í skiptinám við UW-Madison og látið vel af dvölinni. Madison-borg er ofarlega á listum yfir þær borgir í Bandaríkjunum þar sem best er að búa.