Samstarfssamningur við Fróðskaparsetur Færeyja endurnýjaður
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Chik Collins, rektor Fróðskaparseturs Færeyja, endurnýjuðu í vikunni samstarfssamning skólannna til næstu fimm ára. Hann tekur til bæði starfsmanna- og nemendaskipta og samstarfs á sviði rannsókna og ráðstefnuhalds.
Samningurinn tekur við af eldri samningi frá 2016 og viðaukum við hann en skólarnir tveir hafa átt í samstarfi um áratugaskeið og hafa dýpkað það eftir því sem stofnanirnar hafa styrkst sem alþjóðlegir háskólar.
Samstarf skólanna hefur um langt skeið verið á hendi samstarfsnefnda í hvorum skóla fyrir sig. Í Háskóla Íslands hefur svokölluð Færeyjanefnd umsjón með samstarfinu en hún er skipuð sex fulltrúum, einum frá hverju fræðasviði og formanni sem er skipaður án tilnefningar. Jafnmargir starfsmenn eiga sæti í Íslandsnefnd Fróðskaparseturs Færeyja og koma þeir úr deildum háskólans. Fulltrúum í nefndunum er m.a. falið það hlutverk að leggja fram tillögur að samstarfsverkefnum í kennslu og rannsóknum á milli skólanna sem njóta skulu stuðnings og leita tækifæra til samstarfs á nýjum sviðum. Í upphafi var samstarfið einkum á sviði hugvísinda en á undanförnum árum hefur það orðið mun víðtækara og er nú á öllum sviðum HÍ.
Samstarfsnefndirnar sjá einnig um undirbúning Frændafundar, sameiginlegrar ráðstefnu sem skólarnir skiptast á að hýsa en hún var einmitt haldin í 11. sinn í vikunni í Háskóla Íslands. Ráðstefnan var sú umfangsmesta hingað til en þar voru m.a. flutt erindi af öllum fimm fræðasviðum HÍ. Frændafundur hefur farið fram á þriggja ára fresti en það er til marks um aukinn vilja til samstarfs milli skólanna að ráðstefnan verður framvegis annað hvert ár.
Sem fyrr segir kveður samningurinn einnig á um starfsmanna- og nemendaskipti og hyggjast skólarnir vinna að því tryggja nemendum og starfsfólki, sem fer til starfa frá öðrum skólanum til hins, kennslu í íslensku og færeysku sem öðru máli þannig að þau geti orðið virkir þátttakendur í því háskólasamfélagi sem sótt er heim.