Skip to main content
30. júní 2025

„Samfélag án fullfjármagnaðs háskóla er eins og skip með laskað stefni“

„Samfélag án fullfjármagnaðs háskóla er eins og skip með laskað stefni“ - á vefsíðu Háskóla Íslands

-    Sagði Silja Bára R. Ómarsdóttir, nýr rektor Háskóla Íslands, við rektorsskipti í skólanum í dag.

„Fjármagn sem veitt er til háskólastarfs er ein arðbærasta fjárfesting sem til er. Þess vegna ætti það að vera augljós leið til að efla hag samfélagsins að fullfjármagna háskólastigið, að gera Háskóla Íslands kleift að sinna öllum sínum fjölþættu lögbundnu og samfélagslegu hlutverkum, án þess að ganga á úthald og heilsu starfsfólks við skólann. Þetta er nauðsynleg forsenda þess að efla rannsóknir, nám og nýsköpun sem eru undirstaða velmegunar og velferðar hverrar þjóðar. Samfélag án fullfjármagnaðs háskóla er eins og skip með laskað stefni.“

Þetta sagði Silja Bára R. Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild, í innsetningarávarpi sínu sem rektor Háskóla Íslands við athöfn að viðstöddu fjölmenni í Hátíðasal skólans í dag. Silja Bára tók þá við rektorsfestinni, tákni rektorsembættisins, af fráfarandi rektor Jóni Atla Benediktssyni, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, sem gegnt hefur embættinu undanfarin tíu ár.

Fullt var út úr dyrum við rektorsskipti í Hátíðasal í dag og meðal gesta voru forseti Íslands, fulltrúar úr ríkisstjórn Íslands, fyrrverandi forsetar, fyrrverandi rektorar og fjöldi starfsfólks og vina. 

Traust Háskóla Íslands í samfélaginu er fjöregg hans

Athöfnin hófst á ræðu fráfarandi rektors, Jóns Atla Benediktssonar, sem þakkaði starfsfólki og stúdentum fyrir gott og gjöfult samstarf. Jón Atli fór einnig yfir þann árangur og þær margháttuðu breytingar sem orðið hefðu á Háskóla Íslands á þessum fyrsta fjórðungi 21. aldarinnar og hvernig stefnumörkun innan Háskólans hefði skilað auknum árangri m.a. á sviði rannsókna, doktorsbrautskráninga og öflun rannsóknarstyrkja, og auknu alþjóðlegu vísindasamstarfi. Stærsta skref skólans í alþjóðastarfi á síðustu árum væri Aurora, samstarfsnet níu evrópskra rannsóknaháskóla sem Háskóli Íslands er stofnaðili að, en Jón Atli leiddi starf netsins í fjögur ár samhliða rektorsstörfum.

jon atli

Jón Atli vék einnig að þeim stórstígu framförum sem orðið hefðu í kennsluháttum innan skólans samfara upplýsingatæknibyltingu sem enn stæði yfir. Þá benti hann á vaxandi umsvif skólans víða um land og þá miklu húsnæðisuppbyggingu sem orðið hefði á háskólasvæðinu, bæði á vegum skólans og Vísindagarða hans.

Þá þakkaði Jón Atli stjórnvöldum fyrir samstarf og margvíslegan stuðning við Háskóla Íslands í rektorstíð sinn. „Í störfum mínum sem rektor hef ég jafnan fundið hversu mikils trausts Háskóli Íslands nýtur hvarvetna. Þetta traust, sem ítrekað hefur verið staðfest í árlegum viðhorfskönnunum, er fjöregg okkar. Stjórnendur stærstu menntastofnunar landsins, sem er í eigu þjóðarinnar, ná vitaskuld ekki árangri nema þeir eigi í virku samtali og samstarfi við innlend stjórnvöld og stjórnmálamenn,“ sagði fráfarandi rektor.

Jón Atli óskaði jafnframt verðandi rektor, Silju Báru R. Ómarsdóttur, velfarnaðar í öllum hennar störfum á komandi árum og sagði hana hafa ríka og fjölbreytta reynslu sem kennari og vísindamaður. „Ég veit að hún brennur fyrir því að efla háskólastarfið, bæta aðstæður starfsfólks, og tryggja að Háskóli Íslands verði áfram alhliða rannsóknaháskóli sem veitir fjölbreytilegum hópi nemenda fyrsta flokks aðstöðu til að rækta hæfileika sína og starfshæfni,“ sagði Jón Atli sem þakkaði að lokum fjölskyldu sinni fyrir ómetanlegan stuðning.

Upptaka af athöfninni í Hátíðasal

Eyðilegging menntainnviða verði ekki kölluð annað en menntamorð

Í innsetningarræðu sinni sagði nýr rektor, Silja Bára R. Ómarsdóttir, það mikinn heiður að taka við forystu stærsta og elsta háskóla landsins og þakkaði traustið og stuðninginn sem henni væri sýndur. Um leið þakkaði hún Jóni Atla Benediktssyni fyrir hans metnað og elju í starfi rektors. Hann hefði reynst henni einstaklega vel í undirbúningi fyrir komandi verkefni og hún tæki við góðu búi.

Í ræðu sinni fjallaði Silja Bára m.a. um vendingar á alþjóðavettvangi og þær fjölþættu ógnir sem blasi við, eins og heimsfaraldra, stríðsátök, lýðræðisógnir og loftslagsvá, og áhrif þeirra á háskólastarf, akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla víða um heim. „Við sjáum vaxandi átök og hernað í kringum okkur og nú þegar kallað er eftir auknum framlögum ríkja til öryggis- og varnarmála verðum við að standa vörð um fjárframlög til menntunar og rannsókna, ekki síst til þeirra rannsókna sem viss öfl í heiminum virðast óttast, svo sem rannsóknir á fjölbreytileika, loftslagsbreytingum af mannavöldum og jafnrétti. Ráðist er gegn akademísku frelsi út um allan heim, þrengt að tjáningarfrelsi og menntastofnanir jafnvel markvisst eyðilagðar. Við erum hluti af hinu alþjóðlega þekkingarsamfélagi sem nú berst fyrir stöðu sinni – og þeirri baráttu þurfum við að taka þátt í,“ sagði nýr rektor Háskóla Íslands.

Hún vísaði m.a. í hugtakið menntamorð úr grein menntunarfræðingsins Henrys Giroux. „Meðvituð eyðilegging menntainnviða verður ekki kölluð annað en „menntamorð“. Það er alvarlegt og þarf að fordæma. En önnur og lævísari birtingarmynd þess er hugmyndafræðilegt ofbeldi sem felst í því að brjóta niður tjáningarfrelsi og akademískt frelsi með því að refsa og ógna fræðafólki um allan heim. Það þarf hins vegar ekki alltaf að beita ofbeldi heldur er fræðasamfélaginu gert ljóst að betra sé að þegja en að stíga fram. Það er á ábyrgð okkar allra að verja akademískt frelsi,“ sagði Silja Bára.

Silja Bára R. Ómarsdóttir, nýr rektor, tekur við rektorsfestinni, tákni rektorsembættisins, af fráfarandi rektor Jóni Atla Benediktssyni, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, sem gegnt hefur embættinu undanfarin tíu ár. MYND/Kristinn Ingvarsson

Opna þarf háskólann betur fyrir innflytjendum

Nýr rektor lagði í ræðu sinni enn fremur áherslu á að auka fjölbreytileika í nemendahópi skólans og benti m.a. á að innflytjendum í Háskóla Íslands hefði ekki fjölgað jafnmikið og í samfélaginu. „Okkur ber að huga að því hvað það er sem stendur í vegi fyrir aðgengi og þátttöku vissra hópa. Það kann að vera kennslutungumál, takmarkað framboð fjarnáms, tímasetning kennslustunda, eða eitthvað allt annað.  […] Ef menntun á að vera sameiningarafl – sem ég tel að hún eigi að vera – þarf að opna háskólann fyrir þessum hópi og ég mun leggja áherslu á að HÍ sé skóli fyrir öll þau sem vilja læra, óháð bakgrunni eða aðstæðum,“ sagði Silja Bára.

Hún sagðist jafnframt vilja leggja áherslu á aukið samræðulýðræði innan skólans, opin og aðgengileg vísindi og gagnsætt og hreinskiptið samtal við samfélag með framþróun í vísindum, tækni og þekkingu að markmiði. Tengsl háskóla og atvinnulífs væru einnig gríðarlega mikilvæg og mörg tækifæri væri til að efla þau, m.a. með stofnun háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum sem tekur til starfa um næstu áramót.

Enn fremur sagðist Silja Bára sannfærð um að yfirstandandi flutningur Menntavísindasviðs Háskóla Íslands á Sögu myndi styrkja skólann og ekki síst samstarf þvert á fræðigreinar en slíkt samstarf væri grundvöllur framfara í samfélaginu og lausna við helstu áskorunum samtímans.

Silja Bara

Skapa þarf gott og réttlátt starfsumhverfi

Nýr rektor vék að fjármögnun skólans og óskaði eftir samstarfi við stjórnvöld að fullfjármagna skólann þannig að hann gæti sinnt öllum sínum hlutverkum vel og um leið skapað gott og réttlátt starfsumhverfi fyrir starfsfólk og stúdenta með vellíðan að leiðarljósi. „Nýlegar rannsóknir sýna að álag á háskólastarfsfólk er gríðarlegt, sér í lagi meðal þeirra sem eru að hefja störf og kulnunareinkenni eru áberandi mikil meðal akademísks starfsfólks og doktorsnema,“ benti Silja Bára á.

Þá sagði Silja Bára enn fremur að áfram þyrfti að leggja áherslu á sjálfbærni og ábyrgð í umhverfismálum í starfi skólans og ekki síður jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu. „Ég vil skapa starfs- og námsumhverfi þar sem hlúð er sérstaklega að þeim hópum sem standa höllum fæti, hlustað á raddir þeirra og tryggt að öll fái jafnan aðgang að samfélagi Háskóla Íslands. Það mun gera háskólann okkar enn betri og samfélagið allt sterkara,“ sagði nýr rektor.

Konur rektorar við alla sjö háskólana á Íslandi

Silja Bára vakti jafnframt athygli á því að frá og með morgundeginum gegndu konur rektorsstöðum við alla sjö háskólana á Íslandi. „Það er sjálfsagt ekki mitt að greina eða meta þann sögulega áfanga, en ég fæ ekki varist því, á yfirstandandi kvennaári þegar við fögnum svo mörgum tímamótum í jafnréttisbaráttunni, að rekja hann til Vigdísar Finnbogadóttur og þeirra tímamóta sem kjör hennar - fyrir 45 árum í gær – markaði. Kæra Vigdís, sú stund lifir í okkur enn. Sjálf var ég níu ára gömul stelpa í Ólafsfirði og fylgdist spennt með, enda var kosningaskrifstofa rekin heima hjá mér! Breytingarnar sem hafa orðið á íslensku samfélagi síðan þá eru ekkert annað en stórkostlegar og ég verð að játa að ég hef gaman af því að eiga þátt í þessum áfanga í sögu íslenskra háskóla og jafnréttisbaráttunnar,“ sagði Silja Bára enn fremur.

Nýr rektor sagðist enn fremur hlakka til að leiða háskólasamfélagið á næstu árum og sagðist leggja sig alla fram um að standa undir því trausti sem henni hefði verið sýnt. „Framtíðin krefst þess af okkur í háskólasamfélaginu, öðrum fremur, að við séum reiðubúin að þróast, læra og laga okkur að nýjum aðstæðum. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að Háskóli Íslands verði áfram leiðandi afl í íslensku samfélagi. Það getum við meðal annars gert með því að halda áfram að setja íslensk orð utan um viðfangsefni samtímans, reisa með þeim nýja kastala.“

Jón Atli Benediktsson, fráfarandi rektor, og Silja Bára R. Ómarsdóttir, nýr rektor að loknum rektorsskiptum.