Rýnt í niðurstöður PISA í nýju sérriti Netlu
Út er komið nýtt sérrit Netlu sem helgað er niðurstöðum PISA-könnunnarinnar 2018. Niðurstöðurnar voru kynntar samtímis í gær í öllum 79 þátttökulöndum PISA.
Í sérritinu eru þrjár ritrýndar fræðigreinar og ein ritstýrð eftir sjö höfunda á Menntavísindasviði.
Greinarnar nefnast:
- Depurð meðal skólabarna á Íslandi
- Greining á orðanotkun í lesskilnings- og náttúruvísindahlutum PISA 2018: Samanburður á íslensku þýðingunni og enska textanum
- Samband menntunar foreldra við frammistöðu þátttakenda í PISA-könnunni á Norðurlöndum
- PISA – Hvað svo? Nokkur leiðarstef um innleiðingu menntaumbóta
Ritstjóri sérritsins var Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor og annaðist Katrín Johnson verkefnisstjórn með útgáfunni fyrir hönd Menntavísindastofnunar.
Um Netlu — Veftímarit um uppeldi og menntun
Í Netlu eru birtar fræðilegar greinar á íslensku og ensku en einnig frásagnir af þróunarstarfi, umræðugreinar, hugleiðingar, pistlar, viðtöl, ritfregnir og ritdómar um uppeldis- og menntamál. Mest efni í tímaritinu er á íslensku en ritrýndum greinum fylgja útdrættir á ensku og hvatt er til birtingar greina á ensku og alþjóðlegum grunni. Öllum er heimilt að senda efni í ritið og allt efni tengt uppeldi og menntun er tekið til athugunar hjá ritstjórn, hvort sem byggt er á rannsóknum og fræðastarfi eða innsýn og reynslu.
Auk þess eru gefin út árlega sérrit Netlu og ráðstefnurit sem lúta að jafnaði sérstakri ritstjórn í samráði og samvinnu við ritstjórn tímaritsins.