Skip to main content
11. september 2017

Rannsóknir RÍN nýtast samfélaginu öllu

„Rannsóknastofa í næringarfræði (RÍN) hefur frá upphafi lagt megináherslu á að meta næringarástand og tengsl næringar og heilsu meðal viðkvæmra hópa, t.d. barshafandi kvenna, ungra barna, aldraðra og sjúklinga. Þessar áherslur hafa í raun lítið breyst á þeim 20 árum sem liðin eru frá stofnun RÍN, en rannsóknirnar hafa þróast og þroskast,“ segir Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði og forstöðumaður Rannsóknastofu í næringarfræði sem Háskóli Íslands og Landspítali reka í sameiningu.

Tuttugu ára afmæli RÍN var fagnað með veglegu afmælisþingi í Hátíðasal Háskóla Íslands 7. september síðastliðinn en það sóttu m.a. nemendur og vísindamenn sem komið hafa að starfi stofunnar undanfarna tvo áratugi auk velunnara.

Ingibjörg segir megintilganginn með stofnun RÍN hafa verið að búa til umgjörð utan um rannsóknir meistara- og doktorsnemenda í næringarfræði við Háskóla Íslands en margar þeirra hafi verið unnar í nánu samstarfi við Landspítala þar sem RÍN hafi verið með aðsetur frá árinu 2005. „Með því að hafa þessa umgjörð þá hefur nemendum gefist tækifæri til að tilheyra sterkum rannsóknahópi þrátt fyrir að stunda rannsóknir á mjög ólíkum sviðum næringarfræðinnar og í samstarfi við ólíkar fagstéttir, erlenda og innlenda samstarfsaðila. Saman höfum við myndað góða heild og hjálpast að sem teymi að sækja um styrki í erlenda og innlenda rannsóknasjóði. Þegar litið er til baka þá efast ég ekki um að þessi mikla samvinna eigi stóran þátt í því að sú litla eining sem Rannsóknastofa í næringarfræði er hefur átt aðild að rannsóknum í 5., 6., og 7. rammaáætlun Evrópusambandsins auk þriggja rannsókna í Horizon 2020 áætluninni,“ segir Ingibjörg.

Tekist á við járnskort íslenskra barna
Aðspurð hvort miklar breytingar hafi orðið á starfsemi RÍN frá því að stofan var stofnuð árið 1997 segir Ingibjörg að fyrstu árin hafi vinnan snúist um að greina helstu næringarvandamál hvers hóps fyrir sig þar sem engar upplýsingar lágu fyrir að frátöldum könnunum á mataræði fullorðinna Íslendinga. „Greining næringarvandamála er fyrsta skrefið í átt að aðgerðum sem miða að því að bæta næringarástand og freista þess að bæta lífsgæði, líðan og heilsu fólks. Fjölmörg vandamál hafa verið greind á þessum tíma og má þar kannski helst nefna járnskort íslenskra ungbarna á árunum 1995-1997 sem var í kjölfarið leystur í samstarfi margra aðila um endurbætur á ráðleggingum til foreldra ungbarna. Foreldrar virðast hafa fylgt þessum ráðleggingum mjög vel ef marka má niðurstöður rannsóknar sem gerð var 10 árum síðar þar sem járnskortur greindist vart meðal íslenskra ungbarna,“ bendir Ingibjörg á. 

Þá hafi starfsmenn og nemendur við RÍN tekið þátt í og stýrt rannsóknum sem er ætlað að svara spurningum um gagnsemi næringarmeðferðar fyrir mismunandi hópa. „Þekking á þessu sviði hefur aukist gríðarlega undanfarna áratugi og löngu orðið tímabært að innleiða þekkinguna í meira mæli inn í heilbrigðisþjónustu hérlendis,“ segir Ingibjörg.

Niðurstöður rannsókna RÍN hafa reyndar nýst samstarfsaðilum eins og Embætti Landlæknis, Heilsugæslunni og Landspítala í gegnum árin, ekki síst við gerð og endurskoðun ráðlegginga bæði til almennings og sjúklinga. „Það má því segja að niðurstöðurnar hafi þar með gagnast samfélaginu öllu. Rannsóknir okkar hafa einnig nýst við mótun norrænna og alþjóðlegra næringarráðlegginga, en þar má helst nefna viðmið um hámarksneyslu próteina á fyrsta aldrsári og þyngdaraukningu á meðgöngu,“ segir Ingibjörg.

Ein af öflugustu rannsóknareiningum Háskólans
Óhætt er að segja að RÍN sé ein af öflugstu rannsóknareiningum Háskólans og þar á bæ hefur verið og er unnið að stórum rannsóknum í samstarfi við fjölmarga aðila, bæði á Norðurlöndum og víðar um heim. Má þar nefna evrópska rannsóknarverkefnið MooDFOOD sem er samstarfsverkefni 14 háskóla og stofnanna í Evrópu. „Markmiðið er að rannsaka hvort og þá með hvaða hætti næring og næringarástand tengist þunglyndi og hvort hægt sé að meðhöndla þunglyndi með næringarmeðferð. Rannsóknin ProMeal er annað gott dæmi en hún er unnin í nánu samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og norræna háskóla. Þar var markmiðið að kanna gæði skólamáltíða og áhrif þeirra á heildargæði mataræðis og athygli nemenda eftir máltíðina.“

Enn annað verkefni nefnist EUthyroid sem hlaut styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins 2015. Markmið þess er að ná yfirsýn yfir joðhag í Evrópu og samræma aðferðafræði sem notuð er til að meta joðskort og tengda sjúkdóma. „PROMISS er svo nýtt verkefni sem hófst 2016 með stuðningi H2020, en megintilgangur þess er að þróa leiðir til að tryggja gott næringarástand meðal eldri borgara,“ bætir Ingibjörg við.

Enn fremur má nefna nýtt samstarfsverkefni 26 landa sem snýst samræma og hagnýta lífsýnasöfn í Evrópu til að styrkja vísindalegan grunn stefnumótunar stjórnvalda um skaðleg efni sem geta borist í menn, rannsóknasamstarf við University of Deakin í Ástralíu sem eru leiðandi í rannsóknum á áhrifum næringarmeðferðar við ýmsar geðraskanir og loks þátttöku í alþjóðlega netinu INFORMAS sem miðar að því að fylgjast með, mæla og styðja aðgerðir til að skapa heilbrigðara matarumhverfi og draga þannig úr lífsstílssjúkdómum og ójöfnuði þeim tengdum.

„Rannsóknir RÍN sem fjármagnaðar eru með stuðningi íslenskra rannsóknasjóða (Rannís, Rannsóknasjóði HÍ, Vísindasjóði LSH auk styrkja til doktorsnemenda) eru þó ekki síður spennandi og mikilvægar. Með stuðningi þessara sjóða höfum við til dæmis rannsakað næringarástand og næringarmeðferð sjúklinga með lungnaþembu, unnið að þróun einstaklingsmiðaðrar næringarmeðferðar fyrir barnshafandi konur, haldið áfram að rannsaka næringarástand íslenskra ungbarna og næringarástand ýmissa sjúklingahópa, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ingibjörg enn fremur. 

Vilja setja á fót Næringarstofnun Íslands
Eins og margir þekkja hefur nærringarráðgjöf og leiðbeiningar um mataræði tekið breytingum undanfarna áratugi en það hefur verið í takt við þróun innan næringarfræðinnar sem er ung fræðigrein. Fleiri stofnanir og einingar vinna nú að rannsóknum í næringarfræði en fyrir 20 árum og Ingibjörg segir eitt af verkefnunum í framtíðinni að auka samvinnu milli þeirra til þess að byggja upp og viðhalda nauðsynlegum innviðum til rannsókna í næringarfræði. 

„Má þar nefna gagnagrunn um efnainnihald matvæla, gildismetnar aðferðir til að meta neyslu matvæla og einstakra næringarefna, tæki og aðstöðu til rannsókna. Í mörg ár höfum við átt okkur þann draum að starfsemi RÍN þróist í átt að stærri einingu sem hefur fengið vinnuheitið Næringarstofnun Íslands. Þessi stofnun hefði það hlutverk að viðhalda nauðsynlegum innviðum til að unnt sé að fylgjast reglulega með breytingum á fæðuvali og næringargildi í fæðu landsmanna og hefði frumkvæði að aðgerðum ef næringarvandamál yrðu greind. Stofnunin gæti einnig átt í nánu samstarfi við vísindamenn í öllum háskólum og heilbrigðisstofnunum landsins til að tryggja að aðferðir sem notaðar eru til að kanna fæðuval og neyslu næringarefna séu af þeim gæðum sem krafist er.  Í dag ber engin stofnun ábyrgð á að fylgjast með næringarástandi þjóðarinnar eða næringargildi í þeirri fæðu sem við neytum,“ bendir Ingibjörg á. Hún segir aðstandendur RÍN hafa sent forsætisráðuneytinu erindi tvívegis þar sem óskað er eftir viðræðum um uppbyggingu innviða til rannsókna á mataræði þjóðarinnar. Engin svör hafi enn borist.

Myndir frá afmælismálþingi Rannsóknastofu í næringarfræði í Hátíðasal

 

Ingibjörg Gunnarsdótti