Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði fær tvær ISO-vottanir
Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) við Háskóla Íslands hefur staðist úttekt hjá BSI á Íslandi á umhverfisstaðlinum ISO 14001 og staðlinum um heilbrigði og öryggi á vinnustað samkvæmt ISO 45001. Að baki liggur margra ára vinna framúrskarandi sérfræðinga RLE í gæða- og öryggismálum.
Innleiðing markvissra og skilvirkra stjórnkerfa styrkir innra starf Háskólans á öllum sviðum. Háskólinn leggur áherslur á að vera í fararbroddi í þessum efnum og liður í því er að innleiða ofangreinda staðla. „Um leið erum við með þessu að skapa enn betri vinnuaðstæður fyrir starfsfólk og nemendur og við það verður RLE og HÍ eftirsóknarverður vinnustaður fyrir báða hópa í framtíðinni,“ segir Elísabet Jóna Sólbergsdóttir, gæðastjóri hjá RLE, sem komið hefur að innleiðingu staðlanna ásamt samstarfsfólki með aðkomu stýrihóps frá framkvæmda- og tæknisviði skólans.
Hjá RLE starfa 20 manns en stofan sinnir margvíslegum réttarefnafræðilegum rannsóknum fyrir lögreglu og dómsyfirvöld. Stærsti hluti mála RLE er leit og mælingar á alkóhóli, ávana- og fíkniefnum og lyfjum í líf- og efnissýnum. Stór þáttur er túlkun og mat mæliniðurstaðna og vitnisburður í dómsmálum sé þess óskað. Þá heldur RLE utan um ýmiss konar mengunar- og eiturefnamælingar í umhverfi og lífverum.
Starfsfólk RLE sinnir einnig kennslu í Háskóla Íslands á sviði líflyfjafræði og eiturefnafræði. Auk þess skipa vísindarannsóknir æ stærri sess í starfi stofunnar og birta vísindamenn hennar greinar í alþjóðlegum vísindatímaritum og taka þannig þátt í að skapa nýja þekkingu í fræðigrein sinni. Þá er einnig lögð áhersla á veita verðandi vísindamönnum tækifæri á að taka þátt í rannsóknum í gegnum meistara- og doktorsnám innan Háskólans.