Rannsaka þátttöku Norðurlandabúa í peningaspilum

Síðustu daga hefur stór hópur Íslendinga fengið boð bréfleiðis um að taka þátt í umfangsmiklu rannsóknarverkefni sem vísindafólk við Háskóla Íslands stendur að, ásamt samstarfsfólki á Norðurlöndum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna þátttöku íbúa í norrænu ríkjunum í hvers kyns peningaspilum og leggja mat á algengi spilavanda á Norðurlöndum. Það er von rannsakenda að niðurstöður rannsóknarinnar muni efla þekkingu á umfangi og alvarleika spilavanda í þessum löndum.
Alls hafa 30 þúsund Íslendingar fengið bréf í pósti með boð um þátttöku í könnuninni en þeir voru valdir af tilviljun úr þjóðskrá. Samanlagt hefur 150 þúsund íbúum á Norðurlöndum verið boðin þátttaka en umsjón með könnuninni fyrir hönd vísindamanna er í höndum danska rannsóknarfyrirtækisins Epinion.
Daníel Þór Ólason, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar hér á landi en hann hefur um árabil rannsakað þátttöku Íslendinga í peningaspilum og umfang spilavanda í samfélaginu. Daníel segir að með rannsókninni sé ætlunin að kortleggja betur þátttöku Norðurlandabúa í peningaspilum og hugsanlegar neikvæðar afleiðingar hennar á íbúa. „Rannsóknin veitir jafnframt í fyrsta sinn tækifæri til ítarlegrar greiningar og samanburðar á stöðu þessara mála milli einstakra norrænna ríkja. Einnig verður mögulegt að kanna t.d. hvort sýnileiki auglýsinga um peningaspil hafi áhrif á spilahegðun og hvort ákveðnir lýðfræðihópar séu útsettari fyrir slíkum áhrifum auglýsinga en aðrir,“ segir hann.
Auk Daníels koma að rannsókninni vísindamenn við Háskólann í Bergen í Noregi, Háskólann í Álaborg í Danmörku, Sænsku lýðheilsustofnunina, Finnsku heilbrigðis- og velferðarstofnunina og sérfræðingar hjá eftirlitsstofnunum með peningaspilum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.
Þátttaka í rannsókninni er valfrjáls en þau sem hafa fengið boð um þátttöku í bréfpósti geta nálgast könnunina á slóð eða QR-kóða sem finna má í bréfinu. Könnuninni er hægt að svara bæði á íslensku og ensku.
Ef fólk hefur spurningar um könnunina er hægt að hafa samband við Daníel í gegnum netfangið dto@hi.is og í síma 525-5265. Einnig er hægt að hafa samband við rannsóknarfyrirtækið Epinion í gegnum netfangið is@epinionglobal.com og í síma 599-8750 alla virka daga kl. 16.30-18.30.
