Prófessor við HÍ nýr forstjóri Landspítala

Runólfur Pálsson, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri meðferðasviðs og yfirmaður COVID-göngudeildar Landspítalans, hefur verið skipaður í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára. Tilkynnt var um þetta í dag.
Runólfur hefur starfað við Háskóla Íslands í yfir tvo áratugi. Hann var ráðinn lektor í lyflæknisfræði við skólann árið 1999, hlaut framgang í starf dósents árið 2004 og í starf prófessors árið 2014. Hann státar af embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1985 en í framhaldsnámi lagði hann stund á nám í lyflækningum við Hartford Hospital og University of Connecticut 1988-1991 og í nýrnalækningum við Massachusetts General Hospital og Harvard Medical Shoool í Boston 1991-1996. Hann lauk bandaríska sérfræðiprófinu í lyflækningum árið 1991 og í nýrnalækningum árið 1996.
Runólfur hefur leiðbeint nemendum í doktorsnámi og meistaranámi við Læknadeild Háskóla Íslands auk fjölda læknanema og ungra lækna. Fram kemur í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins vegna skipunarinnar að Runólfur hafi mikla reynslu og þekkingu á kennslu- og þjálfunarhlutverki spítalans. „Hann var kennslustjóri lyflækningasviðs og staðgengill framhaldsmenntunarstjóra lyflækningasviðs Landspítala auk þess að hafa komið að fjölda nefnda og annarra stefnumótandi starfa í tengslum við kennslu- og þjálfunarhlutverk spítalans.“
Afar afkastamikill vísindamaður
Runólfur er enn fremur afar afkastamikill vísindamaður og hefur stundað umfangsmiklar rannsóknir á nýrnasjúkdómum. Meginviðfangsefnin hafa verið faraldsfræði og erfðafræði langvinns nýrnasjúkdóms annars vegar og nýrnasteinasjúkdóms hins vegar. Hefur hann m.a. komið að tímamótauppgötvunum á fyrrnefnda sviðinu. Runólfur hefur m.a. unnið með Hjartavernd og Íslenskri erfðagreiningu að ýmsum rannsóknum tengdum langvinnum nýrnasjúkdómi.
Runólfur hefur birt á annað hundrað ritrýndra greina og bókarkafla og hefur átt aðild að liðlega 300 ágripum sem kynnt hafa verið á vísindaþingum. Þá hefur hann haldið fjölda boðsfyrirlestra víða um heim. Einnig hefur Runólfur verið einn af ritstjórum og ábyrgðarmönnum Handbókar í lyflæknisfræði.
„Þá hefur hann gegnt leiðandi hlutverki á alþjóðavettvangi á sviði lyflæknisfræði. Hann hefur verið afkastamikill í vísindastarfi og hefur mikinn metnað og skýra sýn á akademískt hlutverk spítalans og umbætur á því sviði sem og mikilvægi tengsla spítalans við háskólastofnanir,“ segir einnig í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.
Runólfur hefur einnig gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innan lands sem utan og var m.a. forseti European Federation of Internal Medicine 2016-2018. Þá hefur hann fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal nafnbótina heiðursvísindamaður Landspítala árið 2018.
Runólfur tekur við embætti forstjóra 1. mars næstkomandi.
Háskóli Íslands óskar Runólfi Pálssyni innilega til hamingju með starfið.
Runólfur Pálsson, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri meðferðasviðs og yfirmaður COVID-göngudeildar Landspítalans, hefur verið skipaður í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára. MYND/Kristinn Ingvarsson