Páskakveðja
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Nú er lokið fjórðu vinnuvikunni í samkomubanni og fyrir ykkar framlag hefur okkur ekki einungis tekist að halda starfi skólans áfram heldur höfum við haldið uppi gæðum námsins.
Allir hafa lagst á eitt við að tryggja öfluga kennslu og þjónustu. Þið hafið verið dugleg kæru nemendur við að senda spurningar sem snerta nám, námsmat, prófahald og umsóknarfresti. Svör við algengustu spurningum eru nú komin á COVID-19 síðu Háskólans. Ég vona að þið finnið svör við spurningum ykkar þar en minni á að þið getið áfram sent fyrirspurnir á kennarana ykkar og deildir, og á kennslusvid@hi.is.
Ég minni á að umsóknarfrestur um framhaldsnám hefur verið framlengdur til 20. maí. Til að styðja við val á framhaldsnámi munu sérfræðingar námsleiða Háskólans halda fjarkynningar á náminu núna strax eftir páska. Ég hvet þau ykkar sem hyggja á framhaldsnám til að kynna ykkur dagskrána sérstaklega.
Á sólríkum dögum eins og þessum finnum við að vorið nálgast og að baráttan sem við heyjum mun taka enda. Sunnan yfir sæinn breiða, sumarylinn vindar leiða, orti Jóhannes úr Kötlum. Það á sannarlega vel við núna.
Förum inn í páskahelgina með það í huga að fylgja reglum sem okkur hafa verið settar af sóttvarnarlækni og almannavörnum. Ég veit að það geta ekki allir slakað á þótt páskahátíðin gangi nú í garð því margir eiga erfið verkefni fyrir höndum. Gleymum samt ekki að huga hvert að öðru og öllu því góða sem gefur lífinu gildi.
Hjartans þakkir kæru nemendur og samstarfsfólk fyrir ykkar þátt í að bylta nær öllu í ljósi aðstæðna sem eiga sér enga hliðstæðu.
Gleðilega páska.“