Skip to main content
29. október 2020

Öflugur stuðningur við þriðja geirann

„Nýja vefnum er ætlað að vera upplýsinga- og umræðuvettvangur fyrir íslensk félagasamtök. Ætlunin er að miðla hagnýtum upplýsingum um stjórnun, skipulag og rekstur félagasamtaka og annarra sem starfa án hagnaðarvonar. Vonast er til að vefurinn komi að haldi fyrir frumkvöðla – þá sem eru að taka sín fyrstu spor með samfélagsleg verkefni - og líka rótgróin félög sem vilja bregðast við með öðrum eða nýjum hætti við áskorunum í samfélaginu.“ Þetta sagði Jana Eir Víglundsdóttir, verkefnisstjóri Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun hjá Háskóla Íslands þegar nýr vefur þriðja geirans var formlega opnaður í dag. 

Þriðji geirinn er hugtak sem er almennt haft yfir félagshagkerfið eða starfsemi sem heyrir hvorki til opinbera né einkageirans. Það sem einkennir þriðja geirann er starfsemi sem er gjarnan knúin af sjálfboðastarfi án hagnaðarsækni. 

Vefnum var ýtt úr vör á rafrænu málþingi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, og Vaxandi fyrr í dag. Á þinginu sagði Jana að slíkir vefir væru víðast til í nágrannalöndunum en hafi vantað sárlega á Íslandi. Hún sagði enn fremur að á vefnum yrðu aðgengilegar ýmsar hagnýtar og fræðilegar upplýsingar sem fjalli um þriðja geirann og eigi að styðja við samfélagslega nýsköpun. Nýjar innlendar og erlendar fréttir verði birtar daglega en næstu vikurnar verði þær eðlilega mest tengdar COVID-19-faraldrinum. Aflað verði efnis frá einstökum félögum Almannaheilla um hvernig þau bregðist nú við nýrri stöðu vegna COVID-19. Bætt verði reglulega við fræðsluefni, t.d. myndböndum, leiðbeiningum og öðru hagnýtu efni. Ætlunin sé að vera með lifandi viðburði hálfsmánaðarlega. 

„Við vonum að vefurinn verði sóttur af öllum þeim sem leita að upplýsingum um starfsemi þriðja geirans, að hann verði staðurinn sem er heimsóttur þegar afla þarf þekkingar á geiranum og þegar vilji er fyrir því að fylgjast með hvað er að gerast í geiranum á Íslandi og í nágrannaríkjunum,“ sagði Jana.

Hvað er Vaxandi?

Vaxandi er eins og áður sagði miðstöð innan Háskóla Íslands um samfélagslega nýsköpun. Margir kunna að spyrja hvað Vaxandi standi fyrir en um er að ræða starfsemi sem upphaflega kallaðist Fræðasetur þriðja geirans og var stofnuð árið 2010 af prófessorunum Steinunni Hrafnsdóttur og Ómari H. Kristmundssyni. 

„Markmið miðstöðvarinnar er að efla þekkingu á starfi félagasamtaka á Íslandi og annarra sem starfa án hagnaðarvonar og standa að vitundarvakningu um mikilvægi þeirra. Eins og nýja nafnið ber með sér munu verkefni beinast sérstaklega að samfélagslegri nýsköpun en með því er átt við nýjar eða breyttar leiðir til að mæta þörfum samfélagsins með framlagi notenda, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila,“ segir Ómar. 

Í lok síðasta árs fengu miðstöðin og Almannaheill liðstyrk frá ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Þá skrifaði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra undir sameiginlega viljayfirlýsingu ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Jónasi Guðmundssyni, formanni Almannaheilla, um eflingu félagslegs frumkvöðlastarfs og samfélagslega nýsköpun. Í viljayfirlýsingunni var kveðið á um fyrstu skrefin í þessu samstarfi sem fól í sér nokkur afmörkuð verkefni sem miðstöðin og Almannaheill munu vinna að með stuðningi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Háskólans. 

Tvö þeirra voru kynnt á málþinginu. Fyrir utan hinn nýja vef voru kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar um samfélagslegt framlag á tímum COVID-19.

Nýi vefurinn er á vaxandi.hi.is 

Jana Eir Víglundsdóttir