Oculis er þekkingarfyrirtæki ársins 2023 hjá FVH
Fyrirtækið Oculis, sem byggist rannsóknum vísindamanna innan HÍ, hlýtur Þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga 2023 en í ár voru verðlaunin veitt fyrir nýsköpun byggða á íslensku hugviti í þágu bættra lífsgæða og lausna á samfélagslegum áskorunum. Það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhenti forsprökkum fyrirtækisins verðlaunin.
Oculis er augnlyfjaþróunarfélag sem stofnað var árið 2003 og byggist á uppfinningu þeirra Einars Stefánssonar, prófessors emeritus í augnlækningum, og Þorsteins Loftssonar, prófessors emeritus í lyfjafræði. Fyrirtækið hefur þróað byltingarkennda tækni, OPTIREACH, við meðhöndlun augnsjúkdóma í afturhluta augans með augndropum sem auka leysanleika augnlyfja og gefa lengri virkni. Nú þegar hefur verið sýnt fram á virkni augndropanna fyrir sjónhimnubjúg af völdum sykursýki í klínískum rannsóknum. Samhliða vinnur félagið að þróun líftækniaugndropa ásamt því að vera með taugaverndandi lyf fyrir augun á frumstigi. Oculis hefur náð eftirtektarverðum árangri á alþjóðlegum vettvangi með einstakri nýsköpun og er því vel að því komið að vera Þekkingarfyrirtæki ársins 2023, segir m.a. í mati dómnefndar.
Auk Oculis voru það Controlant, Kerecis, Nox Medical, Orf Líftækni og Sidekick Health sem hlutu tilnefningar til verðlaunanna og var Kerecis veitt Þekkingarviðurkenning ársins 2023.
Við þetta má bæta að Oculis var nýverið skráð í bandarísku kauphöllina Nasdaq, en það er fyrsta sprotafyrirtæki Háskóla Íslands sem nær þeim eftirtektarverða árangri. Þá eru Þorsteinn og Einar komnir í úrslit sem uppfinningamenn Evrópu á vegum Evrópsku einkaleyfastofunnar fyrir uppfinningar tengdar Oculis.