Nýtt tölublað Tímarits um uppeldi og menntun komið út
Útgáfu annars tölublaðs Tímarits um uppeldi og menntun var fagnað á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þann 16. desember síðastliðinn. Í tímaritinu eru sex ritrýndar fræðigreinar um ólík efni í menntavísindum eftir sautján höfunda auk ritdóms. Höfundar koma frá fjórum íslenskum háskólum og tveimur erlendum. Þá er þetta í fyrsta sinn sem tímaritið birtir grein sem er hluti af meistaraverkefni nemenda og er vonast til að slíkum greinum fjölgi í framtíðinni.
Meðal umfjöllunarefna í tímaritinu eru starfshættir í framhaldsskólum, viðhorf ungmenna í íslensku fjölmenningarsamfélagi og svæðisbundin áhrif íslenskra háskóla.
Árið 2015 voru tímaritin Uppeldi og menntun og Tímarit um menntarannsóknir sameinuð undir heitinu Tímarit um uppeldi og menntun. Ritstjórar tímaritsins eru tveir, Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskóla Íslands, en Ingólfur lætur senn að störfum eftir að hafa verið ritstjóri Uppeldi og menntunar undanfarin sex ár.
Tímaritið kemur út í rafrænu formi tvisvar á ári og er hvort hefti um sig prentað og sent áskrifendum. Auk þess er ritið í boði í lausasölu.
Sjá einnig: Fögnuðu nýju tímariti og nýjum farvegi