Nýtt rannsóknasetur á Breiðdalsvík
Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands hyggst koma á fót Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík á grunni starfsemi Breiðdalsseturs ses. Rannsóknasetrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. Aðsetur þess verður í Gamla Kaupfélaginu.
Tvö störf hafa verið auglýst við rannsóknasetrið, starf forstöðumanns sem jafnframt verður akademískur starfsmaður við Háskóla Íslands, og starf verkefnisstjóra.
Auglýsingar um störfin má sjá hér:
- Starf forstöðumanns og akademísks sérfræðings við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík
- Starf verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík
Á dögunum var undirritaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Náttúruvísindastofnunar Íslands um að efla rannsóknir í jarðfræði á Austurlandi og auka hlut þeirra verkefna Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnin eru í þeim landsfjórðungi. Háskóli Íslands og Náttúfræðistofnun Íslands munu sameiginlega tryggja fjármögnun starfs verkefnisstjóra við rannsóknasetrið.
Um afar spennandi verkefni er að ræða og starfsfólk rannsóknasetra háskólans hlakkar til að eiga gott samstarf við heimamenn fyrir austan um eflingu rannsókna og vísindastarfs á svæðinu.