Skip to main content
18. september 2015

Nýtt kynningarmyndband um skiptinám

Skrifstofa alþjóðasamskipta heldur reglulega kynningar á skiptinámi fyrir nemendur Háskóla Íslands. Nú gefst nemendum einnig kostur á að kynna sér skiptinám í gegnum myndband sem tekið var upp nýverið. Farið er yfir möguleika sem standa nemendum til boða, farið yfir umsóknarferlið og kostir þess að fara í skiptinám ræddir.  

Kynningarmyndband

Umsóknum um skiptinám frá Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 fjölgaði umtalsvert miðað við síðustu ár. Alls bárust 374 umsóknir, þar af 250 umsóknir um nám innan Evrópu og 124 utan Evrópu. Til samanburðar voru umsóknir um skiptinám innan Evrópu skólaárið 2014-2015 alls 207 og því fjölgar þeim um tæplega 21% milli ára. Umsóknum um skiptinám utan Evrópu fjölgaði um 53%, eða úr 81 umsókn á síðasta ári í 124 í ár.

Skiptinám er einstakt tækifæri fyrir nemendur til að stunda hluta af námi sínu erlendis við einn af yfir fjögur hundruð samstarfsskólum háskólans um allan heim. Nemendur geta að auki fengið skiptinámið metið inn í námsferil sinn við Háskóla Íslands svo dvölin hafi ekki áhrif á lengd námsins.

Skiptinám getur einnig gert nemendum kleift að stunda nám við fremstu háskóla heims þar sem annars gæti verið afar erfitt að fá inngöngu og veitir tækifæri á fjölbreyttara námsframboði, ekki síst á framhaldsstigi. Auk þess getur skiptinám opnað dyr fyrir nemendur sem hafa áhuga á að fara síðar í áframhaldandi nám við sama skóla eða í sama landi. Þá sýna niðurstöður rannsókna fram á jákvæð áhrif skiptináms á atvinnumöguleika ungs fólks.

""