Skip to main content
7. desember 2016

Nytjahlutir og tískuflíkur á textílsýningu

""

Menntavísindasvið Háskóli Íslands og Garðaskóli í Garðabæ vinna um þessar mundir að spennandi samstarfs- og þróunarverkefni í innleiðingu nýsköpunar í textíl. Að sögn Ásdísar Jóelsdóttur, lektors í textíl við Menntavísindasvið, sem leiðir verkefnið ásamt Guðrúnu Einarsdóttur, textílkennara í Garðaskóla, er samstarfið m.a. fólgið í því að kennaranemar leiðbeina nemendum í 10. bekk við að þróa nýsköpunarverkefni. Á sama tíma vinna kennaranemar að eigin verkefnum.

Í aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 í textílmennt er lögð aukin áhersla á sköpun, hugmyndavinnu, hönnun og nýsköpun. Ásdís segir nýsköpun í textíl geta m.a. átt við nýjar aðferðir og hugmyndir. „Nýjar textílaðferðir eru t.d. að vinna með nýja nálgun á eldri aðferðir, ný mynstur, nýjar áferðir, nýjar þarfir, endurnýtingu og -sköpun, svo fátt eitt sé nefnt,“ bendir Ásdís á.

Mikil ánægja með verkefnið

Hanna Ósk Helgadótir, nemandi á öðru ári í kennaranámi með kjörsviðið textílmennt, er ein þeirra sem tóku þátt í verkefninu. „Þetta gekk mjög vel, nemendur voru virkilega áhugasamir og sýndu mikinn metnað við vinnslu afurða. Í tengslum við verkefnið notuðum við svokölluð „nýsköpunarblöð“ til að halda skipulega utan um ferlisvinnuna og fjölbreyttar kennsluaðferðir, s.s. stöðvakennslu, hópumræður og teymisvinnu. Meginmarkmiðið var að nemendur gætu nýtt sér aðferðirnar þegar á hólminn væri komið. Hugmyndavinnan var unnin með hugarkortum og hugmyndaspjöldum og að lokum áttu nemendur að velja að hanna og vinna annaðhvort flík eða nytjahlut,“ lýsir Hanna en hennar verkefni fól í sér gerð ábreiðslu á ungbarnabílstól og lambhúshettu.

Fyrirkomulag sem allir græða á

Eins og fyrr sagði er Hanna í kennaranámi og stefnir á textílkennslu í framtíðinni. Hún telur að vettvangsnám af þessu tagi skipti sköpum fyrir kennaranám. „Við fáum aðra sýn á kennsluna þar sem við erum í raun þátttakendur á sama tíma og við erum að kenna. Við gengum því að nokkru leyti í gegnum það sama og nemendur, eins og t.d. hugmyndavinnuna sem getur stundum verið strembin. Með þessu ferli skilur maður nemendur betur og á auðveldara með að setja sig í þeirra spor. Auk þess fær textílkennarinn hugmyndir frá kennaranemum sem hann getur nýtt áfram í sinni kennslu. Fyrirkomulagið opnar því möguleika í báðar áttir sem allir græða á.“

Afrakstur verkefnisins er sameiginleg sýning nemenda í Garðaskóla og kennaranema við Háskóla Íslands. Meðal verka á sýningunni eru sokkabuxur úr endurnýttu efni, handtaska úr fjölbreyttu hráefni, fjölnota drykkjarmál, textílkennarasvunta, blómapottaskrauthlíf og nýstárleg lopapeysa. Verkin verða einnig til sýnis í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð í upphafi næsta árs.

Hanna Ósk Helgadótir, nemandi á öðru ári í kennaranámi
Hanna Ósk Helgadótir, nemandi á öðru ári í kennaranámi