Nýr sjóður styrkir doktorsnema í menntavísindum
Styrktar- og rannsóknasjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur hefur verið stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til doktorsnema á Menntavísindasviði, einkum vegna verkefna á sviði kennslumála. Stofnfé sjóðsins er nærri 50 milljónir króna.
Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi aðstoðarrektors og prófessors við Kennaraháskóla Íslands, sem lést árið 2018. Í erfðaskrá sinni arfleiddi hún Háskóla Íslands að húseign sinni og öðrum peningalegum eigum með það að markmiði að stofna þennan sjóð.
Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir fæddist á Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði 28. apríl 1927. Hún lauk kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands árið 1948 og var síðar við nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn og Cambridge-háskóla í Englandi. Hún lauk BS-prófi frá Illinois-háskóla í Urbana árið 1968, meistaraprófi 1969 og doktorsprófi í menntasálarfræði frá sama skóla árið 1971. Hún hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1971 og varð fyrsti prófessor við skólann 1973. Þá gegndi hún starfi aðstoðarrektors Kennaraháskólans á árunum 1983-1987. Þuríður lét af störfum við skólann árið 1989.
Stjórn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands fer með stjórn sjóðsins. Í henni sitja sex stjórnarmenn, þ.e. sviðsforseti Menntavísindasviðs sem er jafnframt formaður stjórnar og deildarforsetar þeirra fjögurra deilda sem heyra undir sviðið, ásamt fulltrúa nemenda.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.