Skip to main content
3. nóvember 2025

Nýr alþjóðafulltrúi SHÍ vill efla tengsl og samstöðu meðal nemenda

Anna Sóley Jónsdóttir, nýr alþjóðafulltrúi SHÍ

„Markmið mitt er að stuðla að því að alþjóðanemar upplifi sig sem hluta af samfélaginu við Háskóla Íslands en ekki sem gestum,“ segir Anna Sóley Jónsdóttir, nýr alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hún tekur við stöðunni af Snæfríði Blæ Teitsdóttur, en ráðið er í stöðuna til eins árs í senn. Anna Sóley vill efla tengsl milli íslenskra og erlendra nemenda, bæta upplýsingaflæði og tryggja að rödd alþjóðlegra nemenda heyrist innan háskólasamfélagsins.

Alþjóðafulltrúinn er helsti tengiliður og málsvari alþjóðanema við Stúdentaráð og sinnir fjölbreyttum verkefnum í þágu þeirra. „Ég þjóna fyrst og fremst alþjóðlegum nemendum og vil styðja við þann fjölbreytta hóp sem hefur ákveðið að hefja nám við háskólann okkar. Mér finnst afar mikilvægt að þau finni sig velkomin og viti hvert þau geta leitað ef þau þurfa á aðstoð að halda,“ segir Anna Sóley. Alþjóðafulltrúi er jafnframt fulltrúi SHÍ í Aurora-samstarfinu og vinnur náið með Alþjóðasviði.

Á næstu mánuðum ætlar Anna Sóley að leggja áherslu á að efla upplýsingaflæði og samstöðu innan nemendahópsins. „Ég vil að SHÍ sé sýnilegt fyrir alþjóðanema og að þau viti að þau hafi rödd og stuðning hér innan skólans,“ bætir hún við.

Hún sér fyrst og fremst tækifæri í því að bæta upplýsingaflæði og gera félagslífið opnara. Margir nemendur vilji taka meiri þátt í háskólasamfélaginu en viti ekki alveg hvar þeir eiga að byrja. „Það er markmiðið mitt að skapa rými þar sem nemendur geta komið saman og skapað tengsl, lært hvert af öðru og notið góðs af því að vera hluti af lifandi samfélagi.“

Samvinna og opið samtal innan SHÍ og HÍ lykilatriði

Eitt af meginmarkmiðum Önnu Sóleyjar er að tryggja að skoðanir og reynsla erlendra nemenda komist að í stefnumótun innan SHÍ. „Við í alþjóðanefnd SHÍ hittumst vikulega og ræðum stöðuna. Það er mikilvægt að taka reglulega púlsinn á nemendum og heyra beint frá þeim hvað megi betrumbæta,“ útskýrir hún. Stærstu áskoranirnar núna snúa að því að brúa bilið á milli íslenskra og erlendra nemenda. „Það er lykilatriði að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku. Ég vil jafnframt einfalda og skýra ferlið fyrir nýja alþjóðlega nemendur og tryggja að stuðningurinn sé til staðar frá upphafi. Ég tel að samvinna og opið samtal innan SHÍ og háskólans verði lykilatriði í þessari vinnu,“ segir hún.

Aurora samstarfið skapar tækifæri

Helstu samstarfsaðilar alþjóðafulltrúa eru SHÍ og nefndir innan ráðsins, auk Alþjóðasviðs. „Svo er það Aurora-samstarfið sem er gríðarlega spennandi verkefni sem ég fæ að taka þátt í. Nemendur geta tekið námskeið við aðra háskóla í Evrópu og tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum sem efla færni til að starfa þvert á landamæri, tungumál og menningu. Þetta er agalega spennandi prógram,“ segir hún. Anna Sóley nefnir að félög eins og ESN hafi staðið sig frábærlega í að styðja við alþjóðanema og séu dýrmætur samstarfsaðili SHÍ. „Ég legg mikla áherslu á gott og virkt samstarf og er þegar farin að huga af því hvernig við getum eflt tengslanetið okkar enn frekar, hvort sem er við nemendafélög eða jafnvel fyrirtæki utan háskólans.“

Alþjóðadagar fram undan

„Við erum á fullu núna að undirbúa árlega Alþjóðadaga Háskóla Íslands, sem fara fram dagana 5.-7. nóvember,“ segir Anna Sóley. „Dagskráin er skipulögð af Alþjóðasviði í nánu samstarfi við alþjóðanefnd SHÍ, sem kemur að undirbúningi og viðburðum með virkum hætti. Það verður mikið fjör og fullt af spennandi viðburðum bæði á daginn og á kvöldin. Þetta er einn skemmtilegasti viðburður haustmisserisins og frábært tækifæri til að kynna sér möguleika á námsdvöl erlendis og kynnast nýju fólki og nýrri menningu,“ segir hún og bætir við að fleiri minni viðburðir séu í undirbúningi hjá nefndinni fyrir veturinn sem kynntir verða fljótlega.

Hvetur alþjóðanema til að hafa samband

Anna Sóley býður alþjóðanema velkomna á skrifstofu SHÍ í viðtalstímum á þriðjudögum kl. 10-12 og fimmtudögum kl. 15-17, eða í gegnum tölvupóst á internationalcommittee@hi.is. „Það væri draumurinn að sem flestir kæmu og spjölluðu við mig – bæði á léttu nótunum og ef eitthvað alvarlegra er til staðar,“ segir hún. „Alþjóðlegir nemendur eru ótrúlega mikilvægur hluti af háskólasamfélaginu og rödd þeirra skiptir miklu máli. Ef eitthvað má laga eða bæta, vil ég heyra það!“

Hún hvetur nemendur til að vera óhrædd að spyrja og prófa eitthvað nýtt. Mæta á viðburði, hvort sem þeir eru á vegum háskólans eða ekki. Þannig geti maður kynnst fólki og upplifað háskólastemminguna að fullu. „Og ef þú ert að eiga erfiðan dag, þá er alltaf hægt að kíkja á Stúdentakjallarann,“ segir Anna Sóley.

Anna Sóley er í BA-námi í listfræði með stjórnmálafræði sem aukagrein. Hún sat í Stúdentaráði í fyrra og var að auki í sviðsráði Hugvísindasviðs. Nýverið endurvakti hún nemendafélagið Artímu, félag listfræðinema, sem hafði legið niðri um tíma. Hennar uppáhaldsstaður á háskólasvæðinu er Veröld þar sem allar kennslustundir fóru fram fyrsta misserið hennar í náminu. „Kaffihúsið er með mjög gott matcha, smá falinn gimsteinn að mínu mati.“

Um leið og við bjóðum Önnu Sóley velkomna til starfa þökkum við Snæfríði Blæ innilega fyrir ánægjulegt samstarf sl. ár.

Anna Sóley Jónsdóttir, nýráðinn alþjóðafulltrúi SHÍ