Skip to main content
29. september 2025

Nýjungar á Menntakviku í Sögu

Hótel Saga

Menntavísindasvið býður til sinnar árlegu ráðstefnu, Menntakviku, í nýjum húsakynnum sviðsins í Sögu dagana 2., 3. og 4. október. Ráðstefnan stendur nú í fyrsta sinn yfir í þrjá daga en auk fjölbreyttra erinda um nýjustu rannsóknir í menntavísindum verður í fyrsta sinn boðið upp á skapandi smiðjur fyrir öll áhugasöm.

Menntakvika, sem er stærsta árlega ráðstefnan á sviði menntavísinda hér á landi, fer nú fram í 29. sinn. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Skapandi leiðir í skóla og frístundastarfi: Mótum nýja framtíð“. Sem fyrr hverfist ráðstefnan um það sem efst er á baugi í menntavísindum og tengdum sviðum og í boði eru yfir 230 erindi í yfir 50 málstofum sem snerta nám og kennslu, velferð og farsæld, íþróttir og tómstundir og ótalmargt fleira.

Afar ánægjulegt er að geta boðið gestum til ráðstefnunnar í Sögu, ný heimkynni Menntavísindasviðs, sem var nýverið tekin í notkun eftir gagngerar endurbætur. Gefst gestum, m.a. tækifæri til að skoða húsnæðið og þá miklu möguleika sem það hefur upp á að bjóða.

Ráðstefnan hefst með Opnunarmálstofu Menntakviku fimmtudaginn 2. október undir yfirskriftinni „Kennaramenntun í deiglunni - Hvar stöndum við?“ Þar mun fræðafólk við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, nemendur, fulltrúar úr grunnskólum og af sveitarstjórnarstiginu ræða stöðu og framtíð kennaramenntunar á Íslandi, en hún hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu. Opnunarmálstofan verður í streymi.

Aðalþungi ráðstefnunnar verður föstudaginn 3. október þegar boðið verður upp á málstofur frá kl. 9-17. Þær snerta jafnólík viðfangsefni og atgervi knattspyrnustúlka, félagslega þátttöku flóttabarna og -ungmenna á Íslandi, hæglátt leikskólastarf, gæði náms, kennsluhætti og námsstuðning, umbætur í kennaramenntun, listir og sköpun í skólastarfi, matvendni, foreldrafræðslu, jafnrétti og inngildingu.

Í ár verður enn fremur í fyrsta sinn boðið upp á skapandi smiðjur tengdar menntavísindum og fara þær fram í Sögu laugardaginn 4. október kl. 11–13. Smiðjurnar eru öllum opnar en takmarkaður fjöldi plássa er í hverja smiðju. Því er mikilvægt að skrá sig tímanlega. Meðal viðfangsefna í smiðjunum eru fataviðgerðir, hlutverkaleikur og leiklist í námi, tónlistariðkun með ungum börnum og fjölskyldum, aðferðir til að efla jákvætt skólaumhverfi, efling dygða í gegnum ljóðmennt og skapandi stærðfræði.

Menntakvika er öllum opin og ókeypis og allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vef ráðstefnunnar.

Saga