Nýir deildarforsetar á Menntavísindasviði
Mikil endurnýjun verður í stjórn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í sumar þegar fjórir nýir deildarforsetar taka sæti í stjórn. Umtalsverðar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað á sviðinu undanfarin misseri þar verið er að innleiða nýja deildaskipan sem samþykkt var á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands þann 2. febrúar 2017.
Með nýrri deildaskipan verður deildum fræðasviðsins fjölgað úr þremur í fjórar. Þær eru; Deild faggreinakennslu, Deild kennslu- og menntunarfræði, Deild menntunar og margbreytileika og Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Deildarforsetar og varadeildarforsetar eru kosnir í hverri deild til tveggja ára.
Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, verður forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Rannsóknir hennar eru á sviði næringar, heilsu og lífshátta. Hún hefur m.a. unnið að rannsóknum á gildi skólamáltíða, heilsueflingu í framhaldsskólum og meðferð við offitu barna. Ársæll Már Arnarsson, prófessor, mun gegna stöðu varadeildarforseta deildarinnar.
Freyja Hreinsdóttir, dósent í stærðfræði, verður forseti Deildar faggreinakennslu. Rannsóknarsvið hennar eru víxlin algebra og stærðfræðimenntun, einkum og sér í lagi notkun hugbúnaðar við stærðfræðinám og kennslu. Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent, mun gegna stöðu varadeildarforseta deildarinnar.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor í menntunarfræðum, verður forseti Deildar menntunar og margbreytileika. Meginrannsóknarverkefni hans eru á sviði námskrárfræða, kennslufræði og menntastefnu annars vegar og kynjafræði hins vegar. Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, prófessor, mun gegna stöðu varadeildarforseta deildarinnar.
Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent í stærðfræðimenntun, verður forseti Deilar kennslu- og menntunarfræði. Hún hefur lengi unnið að rannsóknum með kennurum í grunnskólum um stærðfræðikennslu og á eigin háskólakennslu með samkennurum á Menntavísindasviði. Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent, mun gegna stöðu varadeildarforseta deildarinnar.
Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum ungra barna, er forseti Menntavísindasviðs til 30. júní 2018. Þá tekur nýr forseti fræðasviðsins við embætti þann 1. júlí nk.