Ný rannsókn bendir til hreyfingaleysis barna með þroskahömlun
„Börn með væga þroskahömlun hreyfa sig minna en önnur skólabörn. Enn fremur eru börn með þroskahömlun líklegri til að vera of feit og hættara við þróa með sér lífsstílstengda sjúkdóma seinna á lífsleiðinni,“ segir Ingi Þór Einarsson en hann varði nýverið doktorsritgerð við Háskóla Íslands um hreysti og heilsu íslenskra barna með þroskahömlun.
Umræðan um minnkandi hreyfingu og aukna þyngd íslenskra ungmenna hefur verið nokkuð áberandi undanfarin ár. Aftur á móti hefur lítið verið vitað um stöðu mála hjá börnum með sérþarfir. Rannsókn Inga Þórs beindist að börnum með þroskahömlun en þroskahömlun einkennist fyrst og fremst af frávikum í vitsmunaþroska og aðlögunarfærni. „Við áttum von á þessum niðurstöðum þar sem flestar erlendar rannsóknir hafa sýnt svipaðar niðurstöður. Það kom hins vegar á óvart hversu háð börnin voru skólanum hvað hreyfingu varðar. Stærstur hluti hreyfingar þeirra var á skólatíma en þessu var öfugt farið hjá ófötluðum börnum. Eins kom okkur á óvart að það var enginn kynjamunur á hreyfingunni meðal fatlaðra barna en venjan er sú að drengir hreyfi sig töluvert meira. Þá kom einnig í ljós að mikill meirihluti foreldra barna með þroskahömlun taldi að börnin hreyfðu sig nægilega mikið.“
Ingi Þór segir að leita megi skýringa á hreyfingaleysi barna hjá samfélaginu sjálfu. „Við lifum í hröðu og flóknu samfélagi þar sem margt ber að varast. Börn með þroskahömlun eru oftast keyrð til og frá skóla. Sú litla hreyfing sem þau fá virðist vera á skólatíma. Það eru frábær íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á gott starf fyrir fötluð börn. Á hinn bóginn eru þau ekki mörg og það er þekkt að það dregur úr þátttöku ef staðsetning tómstunda er utan hverfis. Með öðrum orðum, það væri mikill hagur í því ef fleiri félög myndu bjóða upp á íþróttastarf fyrir fötluð börn.“
Þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi og nánast hvergi í heiminum hefur verið framkvæmd sambærileg rannsókn með slíkan fjölda þátttakenda þar sem viðurkenndum matsaðferðum er beitt. Ingi hefur lengi haft áhuga á hreyfingu fatlaðs fólks en meistaraverkefnið hans fjallaði um afrekssundfólk með væga þroskahömlun. „Á svipuðum tíma og ég klára meistaranámið voru margir fræðimenn í íþróttafræði í kringum mig uppteknir af viðamiklu rannsóknarverkefni sem ber yfirskriftina European youth heart study (EYHS). Markmið þess verkefnis var að skoða hreyfingu og heilsu barna í Evrópu. Þarna kviknaði hugmyndin að doktorsverkefninu og ég ákvað að nota sömu verkferla og úr rannsókninni EYHS á fötluðum börnum.“
Ekki er ljóst hversu mörg fötluð börn eru á Íslandi en samkvæmt tölum frá nágrannaríkjum má gera ráð fyrir að um 6-10% barna í hverjum árgangi séu með einhverskonar skerðingu. Þetta er ólíkur hópur innbyrðis og ætla má að töluverður fjöldi þessara barna sé með væga þroskahömlun. „Á heimsvísu er tiltölulega fámennur hópur fræðimanna sem hefur áhuga á þessu viðfangsefni. Greinarnar, sem við höfum verið að birta, hafa fengið allmikla athygli og er talsvert mikið vitnað í þær. Nú er mikilvægt að fylgja rannsókninni vel eftir og kynna niðurstöðurnar fyrir fjölskyldum barna með þroskahömlun og börnunum sjálfum. Lágmarks ákefð er lífsnauðsynleg og það þurfa allir að svitna reglulega,“ bendir Ingi Þór á að lokum.