Ný líkön sýna útbreiðslu vaðfugla á Íslandi

Ef þú vilt auka líkur á að sjá uppáhalds vaðfuglana þína þá mun ný rannsókn vísindamanna við HÍ og samstarfsfólks aldeilis koma að góðu haldi. Afrakstur rannsóknarinnar felst nefnilega í útbreiðslulíkönum sem sýna hvernig loftslags- og umhverfistengdir þættir hafa áhrif á það hvar mismunandi vaðfuglategundir eru líklegastar til að halda sig. Þetta er hins vegar ekki eina gagnsemi þessara líkana því þau má m.a. nýta til verndunar fuglastofna. Í rannsókninni er nefnilega bent á svæði sem henta mörgum vaðfuglategundum og gætu þannig reynst árangursríkust sem verndarsvæði. Um leið styðja líkönin við stefnumótun um fjölbreytta landnotkun sem gagnast hinu fjölbreytta íslenska fuglalífi best.
Líkönin birtast í nýrri grein sem byggist á samstarfi Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi, Náttúrufræðistofnunar, Náttúrstofu Norðausturlands, Náttúrustofu Vestfjarða og Náttúrstofu Austurlands. Verónica Méndez, sérfræðingur við rannsóknasetrið sem staðsett er á Laugarvatni, leiddi rannsóknina ásamt Tómasi Grétari Gunnarssyni, forstöðumanni setursins, og niðurstöður þeirra og samstarfsfólks birtust í Wildlife Biology, tímariti norræna vistfræðifélagsins.

Verónica Méndéz ásamt José A. Alves, samstarfsmanni sínum og einum af aðstandendum rannsóknarinnar. MYND/Jón Örn Guðbjartsson
„Markmið okkar var að öðlast betri skilning á hvernig umhverfis- og loftslagsþættir hafa áhrif á dreifingu varps,“ segir Verónica Méndez, sem hefur m.a. rannsakað tjaldinn undanfarin ár við rannsóknasetrið.
Greinin byggist á talningum á vaðfuglum víða um land, jafnt af hálendi og láglendi. „Með því að bera talningar saman við ýmsa umhverfisþætti svo sem hæð yfir sjávarmáli, gróðurhulu, halla, fjarlægð í vatn, veðurfar og fleiri þætti má reikna líkur á að tilteknar tegundir finnist á tilteknum stöðum og búa til líkindakort fyrir allt landið. Kortin undirstrika á hvaða svæðum finna má skörun tegunda og því nýtast þau afar vel í verndunarstarfi. Þekkt er að líkur á að finna vaðfugla eru nátengdar þéttleika og kortin gefa því vísbendingar um hvar er mest af vaðfuglum,“ segir Verónica.
Upplausn á líkönunum er 300 x 300 m og spágildi þeirra er að jafnaði gott að sögn Tómasar Grétars Gunnarssonar, forstöðumanns Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi.
Vaðfuglar eru með algengustu fuglum á Íslandi yfir sumartímann en þeir eru mjög næmir á breytingar á búsvæðum sínum og veita skýrar vísbendingar um loftslagsbreytingar, mengun og landnotkun, svo dæmi sé tekið. Þótt flest séu sammála um fegurð vaðfuglanna og mikilvægi þeirra í lífríkinu þá eru ekki öll sem átta sig á því að vaðfuglar eru mikilvægir afræningjar á stofnum smádýra í fjörum og á landi, t.d. skordýra, orma og krabbadýra. Á hinum endanum eru þeir mikilvæg fæða annarra dýra, t.d. fálka, smyrla, kjóa, refa og máfa.
Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi, segir að búsvæði fugla sem virðist hliðstæð, t.d. mólendi á mismunandi stöðum, geti haft mismikið gildi fyrir vaðfugla eftir því hver skilyrði eru á hverjum stað. „Þetta undirstrikar mikilvægi þess að greina mikilvæg svæði og landslagsheildir og búa til verndaráætlanir sem ná til stærri svæða og landshluta – sé markmið að varðveita heilbrigða vaðfuglastofna til framtíðar. Aðrar rannsóknir á lýðfræði vaðfugla styðja einnig við slíkar ályktanir.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Vaðfuglar dreifast alls ekki jafnt
Nokkur afar áhugaverð atriði eru dregin fram í þessari nýju grein. Þar kemur t.d. fram að vaðfuglar dreifast alls ekki jafnt um landið. Að jafnaði eru flestir fuglar og mest tegundafjölbreytni á grónu láglendi og lágheiðum en þetta eru jafnframt þau svæði þar sem breytingar á landnotkun eru hvað mestar, að sögn vísindamannanna tveggja.
Tegundirnar sem hafa suðlægari útbreiðslu, eins og stelkur, jaðrakan og tjaldur, eru nánast alveg bundnar við láglendi. Tegundir sem hafa lágarktíska útbreiðslu, eins og heiðlóa, spói og lóuþræll, teygja sig inn á hálendið en kjarni útbreiðslunnar er þó á láglendi og á grónu landi í hálendisbrúninni. Tegundir sem hafa norðlægasta útbreiðslu eins og sandlóa og sendlingur finnast jöfnum höndum á hálendi og láglendi.
Tómas segir að búsvæði sem virðist hliðstæð, t.d. mólendi á mismunandi stöðum, geti haft mismikið gildi fyrir vaðfugla eftir því hver skilyrði eru á hverjum stað. „Þetta undirstrikar mikilvægi þess að greina mikilvæg svæði og landslagsheildir og búa til verndaráætlanir sem ná til stærri svæða og landshluta – sé markmið að varðveita heilbrigða vaðfuglastofna til framtíðar. Aðrar rannsóknir á lýðfræði vaðfugla styðja einnig við slíkar ályktanir.“
Varasamt að nota líkönin í blindni
Höfundarnir benda á að þótt líkönin hafi gott spágildi sé varasamt að nota þau í blindni til að álykta um mikilvægi mjög lítilla bletta. Líkönin ættu að gefa góða mynd af mikilvægi stærri skipulagssvæða en komi ekki í stað vettvangsathugana þegar meta á vistfræðilegt gildi jarðskika.
Tæki til framtíðar
Með því að draga upp mynd af dreifingu fuglategunda út frá umhverfis- og loftslagsþáttum leggja aðstandendur rannsóknarinnar til áætlun sem nýst getur í verndarstarfi til framtíðar. Hún dregur fram á hvaða svæðum er hægt að beita slíku starfi í þágu sem flestra tegunda og búsvæða þeirra.
„Þessi líkön snúast ekki bara um að kortleggja hvar fuglarnir eru í dag,“ segir Verónica. „Þau eru rammi til að kortleggja breytingar til framtíðar og tryggja að íslenskir vaðfuglar verði áfram einkennandi í landslaginu fyrir framtíðarkynslóðir.“
