Skip to main content
9. júlí 2020

Nemendur kynntu hugmyndir sínar fyrir Íslandsstofu

Nemendur í sumarnámskeiðinu Markaðssamskipti í Viðskiptafræðideild unnu á dögunum raunverkefni í samstarfi við Íslandsstofu. Verkefnið fólst í því að hópar nemenda settu sig í spor ráðgjafafyrirtækja og legðu til hugmynd og útfærslu á markaðssamskiptaáætlun, með því markmiði að gera Ísland að eftirsóknarverðum áfangastað ferðamanna eftir COVID-19 faraldurinn. Nemendur fengu verkefnið í hendurnar á mánudagsmorgni og kynntu afurð sína eftir hádegi á föstudegi. 

Daði Guðjónsson, fagstjóri neytendamarkaðssetningar hjá Íslandsstofu útlistaði í upphafi vikunnar helstu áskoranirnar sem þau glíma við á þessum fordæmalausu tímum í ferðaþjónustu. Nemendur fengu því sambærilega kynningu á málinu og auglýsingastofurnar sem tóku þátt í útboði Íslandsstofu í vor. Daði var ánægður með hugmyndir nemenda og sagði meðal annars: „Þetta var gríðarlega skemmtilegt. Nemendur komu með þrjár góðar hugmyndir sem allar voru talsvert ólíkar hver annarri. Þetta sýnir okkur enn og aftur að þegar kemur að markaðssamskiptum eru margar nálganir í boði, en á endanum snýst þetta allt um að miðla réttum skilaboðum á réttan hátt til markhópsins, það tókst á heildina litið vel hjá þeim.“

Kennarar námskeiðsins voru þau Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild, Engilbert Aron Kristjánsson, markaðsstjóri Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og Þórarinn Hjálmarsson, markaðsstjóri Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Auður sagði um verkefnið: „Svona raunverkefni eru það sem gagnast nemendum okkar hvað best og undirbýr þau fyrir áskoranir atvinnulífsins. Við erum Íslandsstofu mjög þakklát fyrir að taka þátt í þessu með okkur og veita nemendum innsýn í samskiptamál Íslands á alþjóðavettvangi“.
 

Nemendur í námskeiðinu Markaðssamskipti ásamt kennurum og Daða Guðjónssyni frá Íslandsstofu. MYND/Kristinn Ingvarsson